05.04.1933
Neðri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í D-deild Alþingistíðinda. (2503)

119. mál, stjórn varðskipanna

Björn Kristjánsson:

Mig langar til að gera nokkrar aths. við ræðu hæstv. ráðh. Ég missti af byrjuninni af hans ræðu, svo að aths. mínar ná ef til vill ekki til alls, sem hann sagði. Þegar ég kom hér inn, var hann að tala um, að lögreglueftirlitið á sjónum þyrfti að vera á einni hendi. Ég sé ekkert við það að athuga, að þó að danska stjórnin hafi gefið strandgæzluskipinu, sem hún hefir hér við land, þær fyrirskipanir að fara eftir bendingum íslenzku ríkisstj., þá geti hún þrátt fyrir það falið skipaútgerð ríkisins umsjá þess fyrir sína hönd. Ég get ekki séð, að danska stj. geti haft nokkuð á móti því. Í öðru lagi býst ég við því, að það sé létt verk að stjórna þessu eina skipi, og gagnið af starfi þess svo lítið, þar sem það hefir ekki tekið togara í fleiri ár, að það megi einu gilda, þó að yfirstjórn þess væri á annara hendi.

Þá var hæstv. ráðh. að lesa upp bréf frá Slysavarnafélagi Íslands, þar sem því var lýst yfir, að samvinnan við skrifstofustjórann í dómsmrn. væri svo góð, að félagið óskaði ekki eftir breytingu, jafnvel því gagnstæða. Þetta getur vel verið, en þó held ég, að það muni liggja í augum uppi, að það hljóti í mörgum tilfellum að vera þægilegra að ná til skrifstofu skipaútgerðarinnar, sem er opin alla virka daga og þar sem forstjórinn er alltaf í nætursímasambandi, heldur en til skrifstofustjórans, þó hann sé oftast hér í bænum, þar sem hann er hlaðinn öðrum óskyldum störfum. Þar að auki finnst mér þetta bréf frá slysavarnafélaginu bera það með sér, að það sé ekki óhlutdrægt í þessu máli, þar sem talað er um það, að samvinnan hafi jafnan verið betri við skrifstofustjórann heldur en skipaútgerð ríkisins, en talar þó ekkert um, hvað það sé, sem á hefir brostið meðan skipaútgerðin hafði þetta með höndum. Þess vegna finnst mér, að þessi umsögn sé ekki óhlutdræg; og þess vegna lítið á henni að byggja.

Þá svaraði hæstv. ráðh. hv. form. sjútvn. því, sem hann hafði sagt um samvinnu um landhelgisgæzluna við menn úti um land, að þessa samvinnu mætti alveg eins hafa, þó að útgerðarstörfin færðust til skrifstofustjórans. Það má vera, að þetta sé hægt, en að það hefir ekki verið gert síðan breytt var til um yfirstjórnina, bendir til þess, að einhverjir annmarkar séu á því. Það liggur í augum uppi, að sú samvinna er mun betri, þar sem um er að gera skrifstofu, sem hefir mörgum starfsmönnum á að skipa, heldur en skrifstofustjóra í stjórnarráðinu, sem er hlaðinn öðrum störfum, alveg óskyldum.

Þá vildi hæstv. ráðh. ekkert gera úr því, að það þyrfti sjómannsþekkingu til þess að hafa þessa yfirstjórn á hendi. Um þetta má deila hér í deildinni, þar sem fæstir hafa sjómannsþekkingu til að bera, en þó finnst mér það liggja í hlutarins eðli, að sú stjórn ætti að fara betur úr hendi hjá manni, sem er þaulkunnugur allri strandlengjunni hér við land og veit allar vegalengdir, heldur en hjá skrifstofustjóra, sem hefir enga slíka þekkingu til að bera. Mér virðist það augljóst, að sá maður, sem hefir svona kunnugleika til að bera, hljóti að vera betur fær um að gefa skipunum fyrirskipanir þegar þau þurfa að aðstoða við björgun eða eitthvað því líkt, heldur en skrifstofustjórinn. (Dómsmrh.: En skipstj. varðskipanna, hafa þeir enga þekkingu til að bera?). Jú, en það getur verið nokkuð mikilsvert, að sá maður, sem gefur fyrirskipanirnar hér í Rvík, sé kunnugur á þeim stað, sem þarf að aðstoða við björgun, því að það getur líka verið nauðsynlegt að gefa fyrirskipanir um aðstoð úr landi á þeim stað, sem báturinn eða skipið, sem bjarga þarf, er í hættu. Þá vil ég benda á það til frekari sönnunar því, að yfirstjórn varðskipanna sé fullt eins vel komin í höndum skipaútgerðarinnar eins og skrifstofustjórans, að samningar um laun fyrir björgun skipa hafa verið óhagstæðari síðan skrifstofustjórinn tók við. Eins og kunnugt er, er það ekki svo lítill þáttur í starfsemi skipanna að ná á flot og bjarga strönduðum skipum. Árið 1931 björguðu varðskipin á þennan hátt nokkuð mörgum skipum og fengu fyrir það allverulegar upphæðir, sem urðu til þess að létta mikið undir með rekstri skipanna. Nú hefir, að ég hygg, engu skipi verið bjargað síðan skrifstofustjórinn tók við yfirstjórn varðskipanna, nema einu útlendu skipi, og er það vitanlega ekki honum að kenna, en björgunarlaunin fyrir það voru miklu lægri heldur en áður hafði verið. Eru líkur til, að skrifstofustjórinn, vegna ókunnugleika á þessu sviði, sé miður fær til þess að ná hagkvæmum samningum um þetta heldur en forstjóri skipaútgerðarinnar.

Ef ég man rétt, þá voru björgunarlaunin meðan skipaútgerðin hafði yfirstjórnina 20 til 30% af matsverði skipsins, sem bjargað var. En fyrir þetta síðasta skip, sem bjargað var og skrifstofustjórinn samdi um, voru þau ekki nema 15%.

Hæstv. ráðh. minntist lítið á í ræðu sinni það, sem við flm. lögðum megináherzluna á, en það er sparnaðurinn, sem af því mundi leiða að fela aftur skipaútgerðinni yfirstjórnina. Skipaútgerðin fékk enga sérstaka borgun fyrir yfirstjórnina, en til skrifstofustjórans í dómsmálaráðuneytinu hefir verið borgað 4000 kr. á ári. Nú er það að vísu svo, að hann hefir líka fengið þessa greiðslu fyrir þau ár, sem hann ekki hafði þetta starf með höndum. En það að borga 4 þús. kr. fyrir starf, sem ekki er unnið, það er fjarstæða, sem alls ekki getur komið fyrir hér eftir. Má því telja það víst, að spara megi þessar 4000 kr. með því að breyta aftur til í hið fyrra horf, og á vandræðatímum eins og þeim, sem nú eru, þegar alla hluti þarf að spara til að draga úr útgjöldum ríkisins, þá virðist það óforsvaranlegt með öllu að borga skrifstofustjóranum þessa upphæð að óþörfu, en nota ekki aðra starfskrafta, sem engin aukagjöld kosta. Þetta er aðalástæðan fyrir því, að við fluttum þessa þál.till.

Hv. þm. V.-Húnv. lagði til, að þessu máli væri vísað til stj. Ég get fyrir mitt leyti alls ekki fallizt á það, ég vil miklu heldur láta atkv. ganga um till., þó það yrði til þess að fella hana, því að ég heyri á undirtektum hæstv. dómsmrh., að ekki muni líkur til, að þessu verði breytt, ef till. væri vísað til stj. Og þar sem ég tel, að þessi breyting eigi fullan rétt á sér, að spara þessar 4 þús. kr., þá get ég ekki fallizt á að vísa henni til stjórnarinnar.