05.04.1933
Neðri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í D-deild Alþingistíðinda. (2507)

119. mál, stjórn varðskipanna

Sveinn Ólafsson:

Ég þarf ekki að hafa mál mitt langt. Ég get látið svör hv. þm. N.-Þ. að mestu nægja. En þar sem hv. þm. Vestm. bar sakir á sjútvn., eða meiri hl. hennar, þá verð ég að geta þess, að þessi till. var a. m. k. þrisvar tekin til umr. á fundum n., áður en hún væri afgr. frá nefndinni. Ég man nú ekki gjörla, hvort hv. þm. Vestm. var í öll skiptin við, en það sýnir fundarbókin. En þar sem önnur mál, er fyrir n. lágu, þóttu meira aðkallandi, þá dróst fund af fundi, að málinu væri lokið. Það má því heita stakleg tilviljun, ef hv. minni hl. hefir ekki getað mætt þrjá fundi í röð, því að málið hafði verið dregið tvo fundi vegna fjarveru minni hl. Það er vissulega engin nýlunda, að mál séu afgr. frá meiri hl. n., og veldur sjaldan illindum. Hér var nú heldur ekki um neitt stórmál að ræða. Það gat því ekki virzt neitt athugavert, þó þetta smámál fengi afgreiðslu frá meiri hl. n. eftir langa bið. Það var búið að liggja í n. nokkrar vikur, og mátti jafnvel álykta af tómlæti og fjarveru minni hl., að hann léti sér í léttu rúmi liggja, hvernig um það færi. Ég get heldur ekki séð, að nál. sé á neinn hátt villandi, eins og hv. þm. Vestm. segir, að það sé. Þar er hreinskilnislega sagt frá gangi málsins og engin ásökun til minni hl. Þó er þess getið í nál. og fundarbók, að annar minnihl.manna mundi veikur vera. Hinn var á engan veg forfallaður. Ásakanir hv. þm. eru því ástæðulausar. Ekkert það hefir gerzt í meðferð n. í þessu máli, sem ekki endurtekur sig iðulega í n. Og engu tækifæri er heldur spillt fyrir þessa hv. n.-menn, að koma fram sínu áliti þegar málið er nú til meðferðar.

Út af orðum hæstv. dómsmrh. vil ég segja það, að það er hvergi ráðgert í till., að stjórn varðskipanna eigi að hverfa undan dómsmrh. Undir hann heyra þau fyrst og fremst. En till. lýtur að því, að hann noti þá ráðunauta, sem líklegt er, að vegna sérþekkingar hefðu bezt tök á stjórn skipanna, og óneitanlega stendur skipaútgerðin um þá hluti langbezt að vígi. Eins og tekið hefir verið fram, er forstjóri hennar manna kunnugastur umhverfis land allt. Og hann hefir auk þess á hendi stjórn annara skipa, sem að nokkru gagni geta komið við landhelgigæzluna. Ég hefi sjálfur séð, að póstskipin gera töluvert til þess að ýta veiðiþjófum frá landhelginni, með því einu að fylgja markalínunni. Þegar togaraflotinn sér til þeirra, leggur hann ætíð til hafs, ef hann hefir verið allnærri landhelgilínunni. Þess vegna getur oft verið nokkur samvinna milli varðskipa og póstskipa við strandvörn. Einnig af þeirri ástæðu getur því verið heppilegt, að skipaútgerðin hafi þetta starf með höndum, undir yfirstjórn ráðh.