31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

1. mál, fjárlög 1934

Haraldur Guðmundsson:

Ég flyt aðeins tvær brtt. við þennan kafla fjárl. og get haft stuttan formála fyrir þeim báðum, en vil þó víkja að þeim nokkrum orðum. Fyrri till. er á þskj. 296, XXXIV, og er flutt af okkur þm. Alþýðuflokksins. Hún er við 16. gr. og fer fram á, að 1. liður þeirrar gr. orðist svo:

„Til atvinnubóta í kaupstöðum og kauptúnum 1000000 kr., gegn jafnháu framlagi frá hlutaðeigandi bæjar- og sveitarfélögum, enda sé þeim og gefinn kostur á láni, er nemi helmingi framlags þeirra, eða ríkisábyrgð“.

Ég hefi getið þess áður, að mér þykir undarlegt, að þrátt fyrir allt krepputalið, skuli ríkisstj. ekki gera ráð fyrir neinu atvinnuleysi á næsta ári, sem ríkissjóður muni þurfa að leggja fram fé til að bæta úr. Þetta er því undarlegra, sem undanfarin ár hefir verið veitt nokkur upphæð í þessu skyni. Fjvn. er sér þess meðvitandi öll, að kreppunni og vandræðunum muni ekki ljúka árið 1934, og þó leggur hún ekki til, að nein fjárhæð verði veitt til þess að verjast atvinnuleysinu. Eftir því sem næst verður komizt, hafa um 3000 manns verið atvinnulausir í kaupstöðum og kauptúnum mánuðum saman síðastl. ár. Og engar líkur eru til þess, að atvinnuleysið verði minna á næsta ári. Í till. okkar er gert ráð fyrir því, að þessi styrkur verði því skilyrði bundinn, að jafnhátt framlag komi á móti frá bæjar- og sveitarfélögunum. En eins og allir vita, getur orðið mjög örðugt fyrir ýms bæjarfélög að leggja svona upphæð fram í reiðu fé, og því er gert ráð fyrir því, að stj. sjái þeim fyrir lánum, er nemi 25% af öllu atvinnubótaframlaginu eða gangi í ábyrgð fyrir jafnhárri upphæð. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þessa till., nauðsyn hennar er svo augljós. Það getur verið, að hv. dm. greini á um, hve mikil upphæðin eigi að vera, en ég álít, að með minni upphæð en 1 millj. verði engin veruleg bót ráðin. Frsm. fjvn. fór þess á leit við mig, að ég tæki þessa till. aftur til 3. umr., svo að fjvn. gæti athugað hana. Ég fellst á þetta og tek hana hér með aftur til 3. umr., í þeirri von, að þá verði komið álit fjvn. og kreppun. á henni. En ég tel allsendis ófært að afgreiða fjárl. svo úr þessari d., að engin fjárveiting sé tekin upp í þessu skyni.

Á sama þskj. á ég brtt. ásamt hv. 1. þm. S.-M., og er hún nr. 54. Þessi brtt. fer fram á það, að stj. sé heimilað að ganga í ábyrgð fyrir allt að 120 þús. kr. láni fyrir samvinnufélag á Eskifirði til kaupa á fiskiskipum, og sömuleiðis að ganga í ábyrgð fyrir allt að 100 þús. kr. láni fyrir samvinnufélag sjómanna og verkamanna á Seyðisfirði, til kaupa á fiskiskipum. Þessi upphæð fyrir Seyðisfjörð er endurveiting, því að stj. var leyft á þinginu 1931 að ganga í ábyrgð fyrir þessari upphæð, en ekki tókst að fá ábyrgðina gagnvart útlöndum. Stj. ætlaði að gefa ábyrgðina, ef skipin yrðu keypt innanlands, en ekkert hagkvæmt tilboð fékkst hér á landi. Nú er farið fram á, að þessi heimild sé endurnýjuð, og ég vona, að hv. þm. sjái, hvað brýn nauðsyn er á því að bæta eitthvað úr ástandinu þar eystra. Öllum er kunnugt um hag Eskifjarðar, þar sem ekki lítur út fyrir annað en að hið opinbera verði að grípa til alveg sérstakra ráðstafana til að koma í veg fyrir hallæri þar. Líkt má segja um Seyðisfjörð. Þó hafa hjálpað talsvert þær miklu síldargöngur, sem komið hafa í fjörðinn nú síðustu tvo vetur og hafa skapað dálitla vinnu þar um tíma, sem annars ríkir algert atvinnuleysi á. En undirstaða atvinnulífsins á öllum þessum fjörðum þarna eystra er skipastóll til fiskveiða. Og Seyðisfjörður er ekki glæsilega settur, hvað það snertir. Þar eru um 1400 manns, en skipastóllinn er einir 7 bátar, og þar af er helmingurinn svo gamall, að hann á betur heima á landi en sjó. Einstakir menn eiga þess engan kost að endurnýja bátana, og eini möguleikinn til að reisa rönd við almennu atvinnuleysi er það, að ríkið hlaupi undir bagga með ábyrgð fyrir lánum. Ýmsir krossa sig á bak og brjóst yfir því, að ríkið fari að ganga í ábyrgð fyrir svona fyrirtæki. En ég held, að áhættan sé ekki mikil. Gengið er í ábyrgð fyrir 80% af kaupverði skipanna, gegn 1. veðrétti í skipunum og ábyrgð viðkomandi bæjarfélags. Ekki er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður taki þátt í áhættunni af rekstri skipanna, svo að rekstrartöp kæmu alls ekki á bak hins opinbera. Ég skal geta þess til að sýna, hvað atvinnulífið er dauft þarna fyrir austan, að síðastl. sumar aflaðist á allan skipaflota Seyðisfjarðar um 3900 skippund. Og þetta á að vera aðalþráðurinn í atvinnulífi 1000 manna. Ef þessi ábyrgðarheimild fæst og verður notuð, og þarna koma 5 bátar, 15—16 tonna, má gera ráð fyrir, að afli þeirra verði jafnmikill og allur sá fiskur, sem nú kemur á land á Seyðisfirði yfir sumarið! Ég sé enga möguleika til að reisa við atvinnulífið þarna, sem hefðu í för með sér minni áhættu fyrir ríkissjóð, og það verður ríkissj. eflaust dýrara, ef eins verður látið fara á Seyðisf. og á Eskif.

Ég hefi aflað mér upplýsinga um verð báta af þessari stærð og hefi komizt að raun um, að íslenzkir bátar eru miklum mun dýrari. Nú er verið að rannsaka, hver kostnaður mundi verða af því að byggja bátana eystra, og vona ég, að ég verði búinn að fá upplýsingar um það áður en þingi lýkur. En eftir þeim útreikningum, sem ég hefi fengið, kosta íslenzkir bátar, 16—17 tonna, úr eik og vandaðir að öllu smíði, um 23000 kr. Þar af er 1000 kr. tollur af efninu, og 10000 kr. vinnulaun. Ef horfið yrði að því ráði að byggja bátana hér á landi, mundi það auka talsvert vinnu þar, sem það yrði gert. Og verði báðar þessar till. samþ. og byggðir 10 bátar, þá mundu koma 100000 kr. í hrein vinnulaun við smíði þeirra, og mundi það vafalaust bæta talsvert úr vandræðunum á þeim stað, sem byggt yrði. Hv. frsm. fjvn. mæltist til, að ég tæki einnig þessa till. aftur til 3. umr., og geri ég það hér með.