18.04.1933
Neðri deild: 52. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í D-deild Alþingistíðinda. (2532)

151. mál, launakjör embættis- og starfsmanna ríkis og ríkisstofnana

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Þessa till. til þál. hefi ég leyft mér að bera fram ásamt hv. þm. V.-Húnv. Ætlazt er til, að hæstv. ríkisstj. taki til íhugunar launakjör embættismanna og starfsmanna ríkis og ríkisstofnana og athugi, hverjar leiðir sé hentugar til þess að samríma þetta. Orsökin til þessa er fyrst og fremst breyttir tímar, breytt verðlag og breyttar aðstæður. Jafnframt liggja til þess aðrar ástæður, t. d. mikið ósamræmi í þessum sökum af hálfu hins opinbera, og er það ekki hvað sízt að finna í launakjörum starfsmanna stofnana hins opinbera. Þegar svo stendur á sem nú um stundir, að erfiðleikar ríkja og bjargræði er af mjög skornum skammti, er fyllsta ástæða til þess að taka til íhugunar og samræma sem hagkvæmast reynist launagreiðslur ríkisins. Nú hefir því verið skotið að mér, að hv. fjvn. hafi þegar tekið þetta efni til athugunar og hafi í hyggju að bera fram þáltill. um það. Nefndin hefir undanfarið verið að rannsaka þetta og undirbúa, og höfum við flm. orðið ásáttir um að vísa okkar till. til fjvn. Nefndin ber þá fram, að öllum undirbúningi loknum, þá eða þær ráðstafanir, sem hún telur, að heppilegastar reynist. Hinsvegar treystum við því, að þetta verði rækilega og vel af hendi leyst og að sá tilgangur, sem við kepptum að með flutningi okkar, náist ekki síður fyrir atbeina nefndarinnar. Mælist ég því til, að umr. um þessa till. verði frestað og málinu vísað til fjvn.