31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

1. mál, fjárlög 1934

Ólafur Thors:

Ég á hvorki margar né stórar brtt. við þennan kafla fjárl.frv. og þarf því ekki að segja mörg orð um þær. Við hv. þm. Mýr. berum fram till. þess efnis að veita Jóni Blöndal 1200 kr. styrk til lokanáms í hagfræði. Ég vil vísa til þess, sem ég sagði á síðasta þingi um þennan unga mann. Hann er mjög efnilegur, en algerlega efnasnauður, og naut þeirrar velvildar Alþ. í fyrra, að honum var þá veittur 1200 kr. styrkur, og stóð við þá greiðslu, að það ætti að verða lokagreiðsla. Má vera, að hv. þm. þyki undarlegt, að nú skuli aftur vera farið fram á lokagreiðslu til þessa manns. En þessi ungi maður er brjóstveikur og hefir orðið að dvelja á sjúkrahúsi mestallt síðastl. ár, og því ekki getað lokið námi sínu. Ég vona, að hv. þm. líti á þetta með sömu velvild og í fyrra og vilji létta þessum unga manni örlögin og láta hann ekki gjalda þess, að hann hefir legið veikur.

Þá flyt ég till. um það, að Búnaðarbanka Íslands verði veittar 15000 kr., og til vara 12000 kr., til lækkunar á ræktunarsjóðsláni vegna kaupa á þjóðjörðinni Leirvogstungu í Mosfellssveit. Þessi jörð var seld árið 1926 ábúandanum Sveini Gíslasyni, samkv. heimildarl. frá 1905. En svo er ákveðið í þeim l. í 7. gr., að verðið skuli miða við það, að verðhæðin með 4% í vöxtu á ári veiti sömu vaxtaupphæð og jarðargjöld og jarðabótakvöð nema í peningum til jafnaðar um 10 síðastl. ár.

Á þessari jörð var jarðabótakvöðin 20 kr. og leiga 450 kr. á ári, og eftir því hefði átt að selja þessa jörð á 11—12 þús. kr. En í stað þess var hún seld á 30 þús. kr. Bóndinn gekk að þessu, af því að þá voru betri horfur, en nú er reynslan búin að kenna þessum manni, að hann hafi gert vond kaup. Og nú verður hann annaðhvort að fara burt af jörðinni, sem ætt hans hefir búið á mann fram af manni, eða að ríkissjóður verður að hlaupa undir bagga og taka á sig hluta af skuldinni við Búnaðarbankann. Þetta er sanngjarnt, ef á það er litið, að ríkið selur þessa jörð miklu hærra verði en ætlazt er til samkv. framangreindum l. frá 1905. Og ég er sannfærður um það, að allir þm. mundu greiða þessu atkv., ef þeir væru ekki hræddir um að skapa með þessu fordæmi. Ég get ekki dæmt um það, hvað sú hætta er mikil, en mér þykir ótrúlegt, að nokkur bóndi hafi orðið verr úti í viðskiptum við ríkissjóðinn en einmitt þessi. Ég vona því, að hv. d. taki vel í þetta mál.

Svo á ég ekki aðrar brtt. við þessa umr. fjárl. og skal ekki gera mikið að því að tala um brtt. annara. Ég get þó ekki stillt mig um að játa vanþóknun mína í ljós yfir því, að felldir eru niður styrkir til einstakra manna, sem eiginlega er búið að gefa loforð fyrir styrk æfilangt, t. d. Guðmundar Kambans. Ég held, að þess séu engin dæmi, að menn séu felldir niður af 18. gr. fjárl., eftir að menn einu sinni eru búnir að komast þar inn. Fjvn. álítur laun Kambans svo mikil, að hann þurfi ekki styrks með. En hv. þdm. munu vita, að oft er það svo með skáld og listamenn, að þeir hafa háar tekjur annað árið en ekkert hitt. En hvað snertir laun Guðm. Kambans, þá mun hann ekki sízt hafa fengið þá stöðu, sem hann er nú í, leiðbeinandi á konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn, vegna þeirrar viðurkenningar, sem honum hefir verið veitt með ríkisstyrk. Og missi hann styrkinn, getur eins farið svo, að hann missi stöðuna líka. En án hliðsjónar til þessa manns er ákaflega óviðfelldið, að fjvn. eða einstakir þm. séu að leggja höfuðin í bleyti um það, hvort ekki sé hægt að skera niður einn eða tvo persónustyrki. Það má vera óskemmtileg æfi fyrir skáldin og listamennina, sem ganga sína þyrnum stráðu braut, að geta átt von á því frá hverju þingi, að það muni nú kasta þeim út á gaddinn. Sama má segja um Halldór Laxness, Guðm. Finnbogason og Jón Leifs og um Kamban. Halldór Laxness hefir sýnt það, að hann er skáld, sem verðugur er styrks. Þó að hann hafi skrifað ýmsan óþverra, þá hefi ég lesið alveg prýðilegar skáldsögur eftir hann, sérstaklega þær tvær síðustu. Þær sýna það bezt, að maðurinn hefir ótvíræða skáldhæfileika, og honum er að fara fram.

Um Guðm. Finnbogason þarf ég ekki að fara mörgum orðum. Hann hefir ábyggilega verðskuldað annað af hendi alþjóðar en að verða sveltur.

Þeir menn, sem eru með þessar niðurfellingartill., verða að gera sér það ljóst, að þeir eru ekki að berjast gegn kreppunni, — nei, þeir eru að berjast gegn menningunni í landinu.