06.05.1933
Neðri deild: 67. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1831 í B-deild Alþingistíðinda. (2552)

111. mál, útflutningsgjald

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég hygg, að n. hafi ekki haft alveg réttar upplýsingar um aðstöðu Norðmanna í þessu efni. Það liggur í hlutarins eðli, að farmgjald af beinum er allverulegt, því að þau eru rúmfrek í skipunum, og þær innlendu verksmiðjur, sem hér eiga hlut að máli, hafa að því leyti betri aðstöðu en erlendu keppinautarnir.

En ég held, að þó að þeir greiði hærra fyrir beinin, þá geti þeir selt framleiðsluna ódýrara af því að þeir ætla sér minni gróða heldur en innlendu verzlanirnar.

Hv. frsm. minntist á, að fyrir n. lægi frv. um afnám útflutningsgjalds af landbúnaðarafurðum, en það er alls ekki sambærilegt. Hér er nú farið fram á að íþyngja ekki þeirri framleiðslu, sem greiðir 5—6% meira í ríkissjóð. En að ætla sér að hækka útflutningsgjald af beinum, það væri að færa peninga úr tómri buddu hinna mörgu smáframleiðenda yfir í ríkissjóð. Að hækka útflutningsgjald af beinum er að banna framleiðendunum að hagnýta þann markað, sem beztur hefir verið. Þessi kali til smáframleiðenda, sem kemur fram í þessu hjá n., kemur líklega til af því, að hún hefir ekki grandskoðað málið. Mér þætti því vænt um, ef hv. meiri hl. n. og hv. þm. Vestm. sæju sér fært að taka brtt. aftur til 3. umr. og vil mælast til þess, að hv. frsm. leiti samkomulags um þetta við meðnm. sína.