31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

1. mál, fjárlög 1934

Lárus Helgason:

Ég vil leyfa mér að fara örfáum orðum um brtt. hv. fjvn. á þskj. 199, þar sem hv. fjvn. leggur til, að styrkur til verklegs náms erlendis falli niður. Því verður samt ekki móti mælt, að það er afarnauðsynlegt, að Íslendingar kynnist erlendum starfsháttum, sem geta okkur að gagni komið. Við erum svo skammt á veg komnir í iðnaði, að það er nauðsynlegt að veita eitthvert fé til að fræða menn í þeim efnum. Og því verra er að fella þetta niður, sem það hlýtur að liggja í augum uppi, að þeir, sem standa fyrir iðnskólanum hér, hljóta að vita miklu betur en aðrir, hvað má helzt að gagni koma í þessum málum og hverjir eru líklegastir til að verða iðnaðinum til gagns. Það er því eðlilegast, að þessi styrkur sé fenginn iðnráðinu í hendur, sem réði síðan, hverjir hans nytu. Ég vil því mælast til þess, að þessi till. hv. fjvn. verði ekki samþ.

Þá vil ég geta þess, að ég er fús til að taka aftur til 3. umr. XXXIX. brtt. á þskj. 296.