31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

1. mál, fjárlög 1934

Sveinn Ólafsson:

Aðeins fáein orð til hv. frsm. út af undirtektum n. undir till. mínar.

Ég hjó eftir því að hv. frsm. sagði, að það væri minni ástæða til að samþ. styrkinn til Árna Friðrikssonar af því, að fjvn. hefði lagt til að hækka styrkinn til Fiskifélagsins. Ég er n. sammála um það, að þennan styrk hafi verið rétt að hækka, en verð jafnframt að benda hv. frsm. á hitt, að sú hækkun styrksins kemur Árna Friðrikssyni að engu liði, enda er styrkurinn ætlaður til annars en að launa hans starf. Mér finnst því þessi ástæða hv. frsm. n. gegn brtt. minni með öllu óréttmæt. Þótt Fiskifélagið hafi fengið hækkaðan styrk sinn, þá snertir það Árna Friðriksson ekki persónulega, enda mun styrkaukinn vera veittur vegna byggingar eða annara slíkra framkvæmda félagsins.

Viðvíkjandi brtt. minni við 22. gr., um að ríkið gengi í ábyrgð fyrir láni til skipakaupa vegna samvinnufélaganna á Eskifirði og Seyðisfirði, er þess að geta, að meðflm. minn hefir lýst því yfir, að hann myndi fresta till. til 3. umr. Er ég líka fús til að hafa þá meðferð á till., þar eð nauðsynlegt er, að málið verði frekar skýrt fyrir hv. n. og borin saman ráð um meðferð þess áður atkvæði skera úr. Annars er hér um aðkallandi nauðsynjamál að ræða, og veit ég ekki, með hverjum hætti ríkissjóður ætti að hjálpa þessum veiðistöðvum, ef ekki einmitt með því að hjálpa sjómönnum þarna til að hjálpa sér sjálfir. — Þeir fá tækifæri til þess, ef fleyturnar fást, og einnig til að efla hag ríkissjóðs, því að hver sá fiskibátur, sem gerður er út og notaður um vertíðina, færir ríkissjóði álitlegar tekjur og möguleika til tekjuöflunar.

Ég læt þessar aths. nægja að þessu sinni og er fús til að geyma brtt. til 3. umr., svo að hægt verði að athuga þær betur, enda er meðflm. minn sammála mér um það.