16.05.1933
Efri deild: 73. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1844 í B-deild Alþingistíðinda. (2594)

95. mál, alþýðuskóla á Eiðum

Páll Hermannsson:

Hv. frsm. hefir getið þess, sem líka er rétt, að þær breyt., sem þetta frv. tók í Nd., séu í raun og veru ekki eins stórar og litið gæti út fyrir.

Ég er viss um, að hv. 1. þm. S.-M., sem stóð að þeim brtt., sem samþ. voru við frv. í Nd., hefir borið þær till. fram með hagsmuni skólans fyrir augum og af velvild til hans. Hann lítur svo á, að í l. skólans, eins og þau eru nú, séu ákvæði, sem megi ekki falla niður, þótt þau hinsvegar séu þess eðlis, að ekki eigi við að taka þau upp í nýsamin lög fyrir skólann. En þótt ég viti, að þessar breyt. eru bornar fram af velvilja til skólans, þá get ég ekki fallizt á, að þörf sé á að halda gildandi þeim lagaákvæðum, sem hv. flm. brtt. í Nd. vildi ekki niður fella, þ. e. ákvæðunum um afhendingu Eiðaeignar. Ég held sem sé, að alþýðuskólinn lifi aldrei til lengdar á gömlum lagabókstaf einum eða lagakrókum. Það verður ekki bókstafurinn, sem lífgar þar fremur en endranær. Þar þarf annað og meira að koma til. Þar þarf samhent átök beggja þeirra aðilja, sem að skólanum standa, annarsvegar ríkisvaldsins, sem á að sjá skólanum fyrir starfskröftum, rekstrarfé og þeim útbúnaði, sem með þarf, og hinsvegar þeirra manna, sem skólann eiga að nota og áhrifa hans að njóta.

Mér þykir rétt að geta þess hér, að á síðari árum, og einkanlega nú á þessu síðasta, hefir vaknað almennur verulegur áhugi þar eystra um að sporna við því, að þessi menntastofnun legðist niður. Mönnum er nú að verða það ljóst, að ef svo færi, að Eiðaskóli legðist í auðn, væri þar með smíðaður einn stærsti naglinn í líkkistu Austurlands. En ég er þess fullviss, að sá áhugi megnar þó ekki að halda skólanum lifandi, nema ríkið sjái sér jafnframt fært að útbúa hann betur en gert hefir verið hingað til. Kennslukraftar og stjórn öll er í bezta lagi. Þó er þessi skóli ekki samkeppnisfær við aðra sambærilega skóla. Þar er enginn jarðhiti, og þar vantar einnig það, sem helzt gæti komið í stað jarðhita, sem sé rafmagn. Sundlaug hefir skólinn ekki heldur, svo sem aðrir skólar. Það, sem skólinn því sérstaklega þarfnast, er rafmagn, en það er hægt að veita honum. Í sambandi við það gæti svo líka komið sundlaug, sem skólinn hefir einnig ríka þörf fyrir. Skóli, sem er afskekktur, býr við fámenni, strjálbýli og illar samgöngur, eins og Eiðaskóli gerir, getur ekki staðizt samkeppni við þá hliðstæðu skóla, sem í þessum efnum eru að mun betur settir, sé hann jafnframt að öðru leyti verr útbúinn.

Í þessari d. var nú nýlega við umr. fjárl. samþ. að veita nokkra fjárhæð til umbóta útbúnaði Eiðaskóla. Tel ég skylt að þakka það. Ég geri mér von um, að þótt beðið verði um meira fé til skólans á næstu árum, þá verði því tekið jafnvel. Býst ég líka við, að þeim fjárbónum verði stillt í hóf. En hitt má telja víst, að Austfirðingar hljóta að sækja það fast á næstu árum, að Eiðaskóli verði gerður það vel úr garði, að hann þurfi ekki að gefa upp öndina fyrir kulda né klæðleysi.