27.05.1933
Neðri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í D-deild Alþingistíðinda. (2605)

201. mál, útrýming fjárkláða

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Fyrir landbn. hafa legið tvö erindi frá sýslunefndum um að gangast fyrir útrýmingarböðun vegna fjárkláðans. Annað erindið er frá sýslunefnd Rangárvallasýslu og hitt frá sýslunefnd Mýrasýslu, sem beinir svo hljóðandi áskorun til þingsins:

„Sýslunefndin skorar á Alþingi að fyrirskipa útrýmingarböðun fjárkláða um land allt, að undangenginni rannsókn á, hvaða baðlyf væri bezt til útrýmingar“.

Landbn. hefir haft málið til meðferðar, en treystist ekki til að leggja til, að útrýmingarböðun fari fram nú þegar. En ef slíkt yrði gert, þá væri sjálfsagt, að böðun færi fram um land allt, eins og sýslunefnd Mýrasýslu stingur upp á, því að ef gangskör ætti að gera um útrýmingu fjárkláða, sem lifir um land allt, þá er þýðingarlaust að framkvæma böðun á takmörkuðu svæði, heldur yrði að baða um land allt. Það hefir gengið örðuglega að útrýma fjárkláðanum. Þegar útrýmingarböðun hefir átt sér stað á einhverju svæði, þá hefir hann horfið aðeins um stuttan tíma, en gosið upp aftur. Þetta kemur til af slælegu eftirliti, og gefur að skilja, að ekki þýðir fyrir einn hrepp eða eina sýslu að láta fara fram samvizkusamlega böðun, ef svo nærliggjandi hreppar eða sýslur skeyta því litlu. Ef þetta á að koma að notum, verður rannsókn að fara fram um land allt. Þess vegna ber ég nú fram þáltill. um, að næsta haust fari fram ýtarleg skoðun um land allt. Er ætlazt til, að sláturhússtjórar styrki þessa starfsemi með því að rannsaka og gefa skýrslur um, hvað mikið af sjúku fé kemur til sláturhúsanna næsta haust. Ef kæmi í ljós við þessar rannsóknir, að fjárkláðinn sé ekki eins útbreiddur eins og menn ætla, þá gæti komið til mála að binda útrýmingarböðunina við takmarkað svæði. En ef hinsvegar kæmi í ljós, að líklegt væri, að fjárkláði væri mjög víða á landinu, þá er ekki eftir neinu að bíða lengur með útrýmingarböðunina. Þetta mundi hafa allmikinn kostnað í för með sér, því verður ekki neitað, en það er líka kostnaðarsamt að endurtaka með stuttu millibili kákböðun, sem ekki kemur að tilætluðum notum. Það verður ekki hjá því komizt, að ríkisstj. taki þetta mál í sínar hendur samkv. heimild í l. nr. 40 frá 1909, og sjái um, að samvizkusamleg böðun fari fram um land allt, eða a. m. k. hvert samgöngusvæði tekið fyrir og allt fé baðað undir ströngu eftirliti.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum, en vænti, að hv. d. sjái nauðsyn þessa máls og samþykki þáltill.