27.05.1933
Neðri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í D-deild Alþingistíðinda. (2607)

201. mál, útrýming fjárkláða

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Ég get verið á sama máli og hv. flm. um, að eftirgrennslan og skoðun á fjárkláða sé nauðsynleg, og nægir þar til framkvæmd laga frá 1901. Það er nauðsynlegt að safna greinilegum skýrslum um þetta af öllu landinu og sjálfsagt að fá til þess hjálp sláturhússtjóranna. En ekki mundi ég telja mér skylt, þó að þáltill. yrði samþ., að fyrirskipa, að fengnum skýrslum, útrýmingarböðun um land allt, vegna þess mikla kostnaðar, sem slíkt hefði í för með sér, og sýnist mér rétt, að Alþingi taki sjálft ákvörðun um það áður.

Hinsvegar er hægt að afla fyrir næsta þing glöggra skýrslna um útbreiðslu fjárkláðans, og er stj. skylt að leggja fyrir næsta þing tillögur, en fjárveitingarvaldið sjálft verður að taka ákvörðun um þær kostnaðarsömu framkvæmdir, sem þá gæti orðið um að ræða.