12.05.1933
Neðri deild: 72. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í B-deild Alþingistíðinda. (2613)

133. mál, lokunartími sölubúða

Guðbrandur Ísberg:

Eins og frsm. n. skýrði frá, er ég annar þeirra, sem skrifuðu undir nál. með fyrirvara. Ég álít það óheppilegt að takmarka starfsdag sendisveinanna þannig, að honum sé lokið klukkutíma fyrir lokunartíma sölubúðanna. Eins og kunnugt er, eru ekki allir sendisveinar börn, þótt margir þeirra séu það. Og í niðurlagi sömu mgr. er sagt, að heimilt sé að „ákveða vinnutíma sendisveina misjafnlega stuttan, eftir aldri þeirra“. En það er fjarstæða að ákveða, að sendisveinar skuli fá frí klukkutíma áður en búð er lokað. Það getur skaðað kaupmanninn og kaupendurna. Og ef gengið er út á þá braut, að banna jafnvel fullorðnum sendisveinum að vinna eins og algengt er í búðum, þá er ekki að vita, hvar yrði staðnæmzt á þeirri braut. Á síðasta klukkutímanum fyrir lokunartíma þarf fólk oft að fá vörur sendar heim til sín, og gæti þetta ákvæði haft mjög óþægilegar afleiðingar. Álít ég það því mjög óheppilegt og óþarft, og vil þess vegna leyfa mér að koma fram með brtt., þannig orðaða:

Við 1. gr. 3. mgr. Í stað orðanna „eigi síðar en einni klukkustund fyrir lokunartíma“ komi: eigi síðar en á lokunartíma.

Þessa till. leyfi ég mér að afhenda hæstv. forseta.