10.04.1933
Neðri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

1. mál, fjárlög 1934

Frsm. fyrri kafla (Ingólfur Bjarnarson):

Ég gat þess við 2. umr. málsins, að ef till. n. næðu samþykki, myndi tekjuhallinn verða um 16 þús. kr. En nú fór það svo eftir atkvgr., að tekjuhallinn varð um 52 þús. kr. Það má að vísu segja, að þessi aukning tekjuhallans sé vonum minni, þegar tekið er tillit til þess aragrúa af brtt., sem fyrir lágu til hækkunar. En hinsvegar mátti glöggt sjá af því, sem fram kom við atkvgr., að þdm. sáu ekki brýna nauðsyn bera til að skera svo mjög við neglur ýmsa bitlinga og fjárframlög til einstakra manna. Af þeim ástæðum er það, að n. álítur tilgangslítið að fara nú af nýju að bera fram frekari till. í sömu átt, sem hún þó hefði gert, ef sézt hefði við atkvgr., að d. vildi styðja viðleitni hennar í þá átt. Aftur á móti varð niðurstaðan sú, að n. hneig að því ráði að hækka til nokkurra muna framlög til verklegra framkvæmda og samgöngubóta. Þær hækkunartill., sem að vísu eru ekki margar, nema þó samtals 94 þús. kr. Verður þá tekjuhallinn, ef till. n. verða samþ., um 150 þús. kr. Með því er þó ekki séð fyrir mörgum stórfelldum útgjöldum, sem sjálfsögð eru og óhjákvæmileg, bæði samkv. heimildum ýmsum og 1. Þetta minntist ég á við 2. umr. og sé ekki ástæðu til að fara nánar út í það nú. Það er sýnilegt á þessu, sem ég hefi sagt, að afgreiðsla fjárl. er nú fremur óálitleg, eftir því sem nú horfir, nema þá að svo vel vilji til, að batni í ári, sem menn geta að vísu vonað, en sem n. treystist ekki til að byggja á, enda kom í ljós í n., að hún teldi eigi annað fært en að gera heimildarráðstafanir, sem grípa mætti til, ef á þyrfti að halda, og mun frsm. síðari kafla gera nánari grein fyrir þeim. Hæstv. forsrh. gat þess við 1. umr. fjárl., að hann hefði fyrirskipað að safna ýtarlegum skýrslum um kostnað við ýmsar ríkisstofnanir, til athugunar því, hvort ekki mætti koma þar á sparnaði. Nú fór það svo, að n. bárust ekki þessar skýrslur fyrr en svo seint, að hún gat ekki unnið úr þeim til þess að koma fram með till. því viðvíkjandi, nema að umr. tefðist til mikilla muna. N. tók því það ráð að afgr. frv. eins og það lá fyrir, en býst hinsvegar við að taka þetta mál fyrir síðar og bera þá fram niðurstöðuna hér í d. í þingsályktunarformi.

Það liggja hér fyrir brtt. frá ýmsum hv. þdm., sem samtals eru töluvert háar, og ætla ég vitanlega ekki að taka þær til athugunar hverja fyrir sig, fyrr en flm. hafa mælt fyrir þeim. En eftir lauslegri athugun held ég, að þær nemi samtals 11% millj. kr., og treystir n. sér ekki til að mæla með þeim yfirleitt, þótt það álit liggi ekki beint fyrir nú. — Þá eru það fáeinar till., sem n. ber fram, sem ég vildi lítillega minnast á. Það eru nokkrar till. um hækkun á framlagi til vega. Fyrsta till. er um, að veittar séu 3000 kr. til Laugadalsvegar á Ísafirði. Það er fyrirhugað að koma á akvegarsambandi, svo fljótt sem unnt er, frá Ísafjarðardjúpi og austur yfir Steingrímsfjarðarheiði áleiðis til Hólmavíkur. Þetta er löng leið, og eftir skýrslu vegamálastj. myndi þetta samband að vísu kosta allmikið fé, en þó er þess að geta, að mikill hluti leiðarinnar yfir Steingrímsfjarðarheiði er mjög auðfarinn og myndi á löngum köflum fær bílum án mikilla viðgerða. Þar sem þarna er verið að byrja á mjög mikilsverðu vegarsambandi fyrir hlutaðeigandi héruð, og hinsvegar ekkert framlag ákveðið til vega í N.-Ísafjarðarsýslu í fjárl.frv., þótti n. rétt að þetta yrði veitt.

Næsta till. er um að hækka framlagið til Þistilfjarðarvegar úr 5000 upp í 7000 kr. Þessi litla hækkun er miðuð við þá miklu nauðsyn, sem er fyrir héraðsbúa, að sem fyrst verði gerður akfær vegarkaflinn vestur frá Hafralónsá, sem nú er óbílfær. Því þegar komið er skammt vestur fyrir ána, tekur við greiðari leið, sem bílar komast um án nokkurra verulegra viðgerða. Þess vegna litum við svo á, að rétt væri að flytja þessa till. og leggjum til, að þessari upphæð verði bætt þarna við. Ég vil geta þess, að eftir þeirri fjárveitingu, sem nú er í fjárl., er gert ráð fyrir, að vegurinn komist að Hafralónsá í sumar.

Þá leggur n. til, að tekinn sé upp nýr liður til Vopnafjarðarvegar, 4000 kr. Þessi liður hafði fallið niður í frv. stj., en hinsvegar hefir vegamálastjóri lagt til, að þarna væri veitt fjárframlag. Það væri nauðsynlegt og n. taldi það sanngjarnt, einnig sem lítilsháttar styrk vegna atvinnuleysis á þessu svæði.

Um till. að hækka um 1000 kr. framlagið til Jökulsárhliðarvegar, sem er borin fram eftir ósk vegamálastjóra, er það að segja, að hún er miðuð við, að vegurinn komist út að Sleðbrjót. En þetta er svo lítil upphæð, að ekki þýðir að fjölyrða um hana.

Þá kemur till. frá n. um að hækka lítilsháttar framlagið til Fjarðarheiðarvegar. N. hefir til samkomulags fallizt á að hækka þetta tillag dálítið, en treystir sér ekki að ganga lengra að þessu sinni, enda verður eigi annað sagt en að framlagið til þessa vegar þarna sé allsæmilegt og meira en til ýmsra hliðstæðra vega, og byggist það sérstaklega á þeirri þörf, sem þarna er fyrir auknar atvinnubætur, að dómi n.

Þá eru smáhækkanir til tveggja vega: Breiðadalsvegar og Geithellahreppsvegar — 1000 kr. til hvors, og þýðir ekki um það að fjölyrða, en þess má geta, að till. eru fram bornar í samráði við vegamálastjóra.

Þá er hér till. um að hækka styrkinn til Eimskipafél. Ísl. um 50 þús. kr. Styrkurinn er nú ákveðinn 250 þús. Hefir n. kynnt sér horfurnar fyrir félagið og komizt að þeirri niðurstöðu, að það geti eigi komizt af með minni styrk á árinu 1924 en er í núgildandi fjárl. og á því er till. byggð, enda má öllum vera það skiljanlegt, að svona krepputímar koma hart niður á félaginu, vegna eðlilegs samdráttar á öllum flutningum. Einnig vil ég taka það fram, að almenningi er ákaflega mikil nauðsyn á, að félagið geti sem bezt tekið tillit til þarfa hinna ýmsu staða umhverfis landið, og það er félaginu vitanlega miklu hægara, því ríflegri styrk sem það fær úr ríkissjóði. Og til þess ætlaðist n., að svo verði í framkvæmdinni.

Þá liggur fyrir till. frá n. um að hækka framlag til bryggjugerða og lendingabóta um 11 þús. kr. samtals. Skal ég gera grein fyrir, hvernig n. ætlast til, að þessari hækkun verði ráðstafað. Það er þá fyrst, að hún leggur til, að 5000 kr. verði veittar til bryggjugerðar í Hnífsdal, 1/3 kostnaðar móti 2/3 annarsstaðar að. Til bryggjugerðar á Vattarnesi 1/3 kostnaðar, allt að 3000 kr., og í þriðja lagi til bryggjugerðar í Grafarnesi við Grundarfjörð 1/3 kostnaðar, allt að 3000 kr. — samtals 11 þús. kr. Vil ég minnast lítillega á hvern þessara liða, fyrst Hnífsdalsbryggjuna. Eins og hv. þm. N.-Ísf. upplýsti við 2. umr. fjárl., þá hefir verið unnið að henni tvö undanfarin ár og búið að leggja í þessa framkvæmd alls um 55 þús. kr. Árið 1931 var unnið fyrir 38900 kr. og 1932 fyrir 15800 kr. Upphaflega var ætlað, að bryggjan myndi kosta 81 þús. kr. Nú hefi ég sannfært mig um hjá vitamálastjóra, að kostnaður við bryggjuna fer töluvert fram úr áætlun. En þrátt fyrir það, að búið er að leggja svona mikið fé í bryggjuna, þá er nauðsynlegt að koma henni lengra, því að eftir því sem mér skilst á vitamálastjóra, þá mun hún koma að tiltölulega litlum notum nú, en vitanlega því meiri, sem meiru er hægt að bæta við hana. N. telur því sjálfsagt að veita þarna ákveðinn styrk, til þess að verkinu megi ljúka eftir því sem héraðsbúar geta lagt fé fram. Þá lá fyrir n. uppdráttur af bryggjugerð á Vattarnesi eystra og kostnaðurinn áætlaður 13500 kr., en beiðni lá fyrir frá héraðsbúum, að ríkissjóður legði að þessu sinni fram 3000 kr., og vill n. mæla með því, að því tilskildu, að 2/3 hlutar komi frá héraðinu, svo að alls verði upphæðin 9000 kr. Eftir þeim upplýsingum, sem n. gat fengið, hyggur hún, að með þessu framlagi megi vænta nokkurra nytja af þeirri byrjun, sem fyrir þetta fé yrði gerð. Nú sé ég, að hv. 1. þm. S.-M. hefir borið hér fram aðra till. um þetta sama atriði, og geri ég ráð fyrir, að hann hafi ekki vitað um till. n., og vænti því, að hann geti tekið sína till. aftur. — Frá hreppsnefndinni í Eyrarsveit liggur fyrir beiðni um 3000 kr. styrk til bryggjugerðar við Grafarnes í Grundarfirði. Þangað hefir áður verið veittur styrkur móti 2/3 hlutum frá hreppnum, og vill n. mæla með því, að þessar 3000 kr. verði veittar gegn 2/3 hlutum annarsstaðar að. En þó skal ég geta þess, að með þeirri upphæð, sem hér er til tekin og líklegt er að héraðið geti lagt fram á móti, verður verkið ekki fullgert, enda þótt sýnilegt sé, að þetta framlagt geti orðið að miklum notum.

Ég vil láta þess getið um hina tvo síðasttöldu liði, til bryggjubygginga í Grundarfirði og á Vattarnesi, að vitamálastjóri hefir eindregið lagt það til, að verkinu yrði lokið í einu, en ekki á fleiri árum, og segir hann, að kostnaðurinn verði minni, ef það er gert í einu lagi. En nú hefir það svo berlega komið í ljós, að héruðin treystast ekki til að leggja fram nú þegar alla upphæðina til þess að fullgera mannvirkin. En hinsvegar virtust n. miklar líkur til, að þó verkinu yrði ekki lokið að fullu, þá kæmi það strax að talsverðum notum. Þess vegna treystir hún sér ekki til að taka þessa bendingu vitamálastjóra til greina. N. ákvað að synja ekki um þessa styrki nú, vegna hinna almennu vandræða, sem nú eru ríkjandi um að fá atvinnu, og af því að það er erfiðara fyrir héruðin að fá fé til framlags í einu lagi heldur en að leggja fram vinnu til verksins smámsaman.

Um alla þessa styrki til bryggjubygginga vil ég f. h. n. vísa til þeirra skilyrða, sem hún hefir sett í nál. hvað snertir stjórn og umsjón með þessum framkvæmdum og afnot mannvirkjanna þegar búið er að reisa þau. Og að sjálfsögðu er það vitamálastjóri, sem á að hafa tryggilegt eftirlit með framkvæmdum þessara mannvirkja.

Ég held svo, að það séu ekki fleiri till., sem ég; þarf að minnast á fyrir hönd n. við þennan kafla fjárl., og get því látið máli mínu lokið. Um afstöðu n. gagnvart brtt. einstakra þdm. mun ég engu lýsa, fyrr en flm. eru búnir að mæla fyrir þeim sjálfir.