10.04.1933
Neðri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

1. mál, fjárlög 1934

Frsm. síðari kafla (Tryggvi Þórhallsson):

Það er hvorttveggja, að það eru ekki margar till., sem fjvn. hefir borið fram við síðari kafla fjárl., og í annan stað eru ekki margir áheyrendur hér í deildinni nú, svo að ég sé ekki ástæðu til að vera margorður.

Um fjárframlag ríkissjóðs til Búnfél. Ísl. var því lýst yfir af frsm. við 2. umr. fjárl., að n. vildi ekki fastákveða þetta framlag í 16. gr. fjárl., nema að fengnum tillögum frá Búnaðarþingi, samkvæmt áætlun þess, er fram yrði komin við 3. umr. Fjvn. hefir fengið frá Búnaðarþinginu skýrslur og grg. Búnaðarfél. Ísl. viðvíkjandi þessum lið, og vill n. verða við ósk þess um að láta þetta framlag standa óbreytt í frv., og þess vegna hefir hún ekki borið fram neina brtt. um það.

Þá skal ég fyrst minnast á XXXIV. brtt. á þskj. 366. Hún er í þremur liðum, og er það úthlutun á styrkjum til þess að gera ræktunarvegi. Hv. frsm. fyrri kaflans gat um þá stefnu fjvn. að veita fé til vegagerða sem víðast um landið, til þess að það yrði jafnframt til atvinnubóta á sem flestum stöðum. Þessar till. fara í sömu átt eins og liðirnir henda til. Fjvn. leggur til, að framlagshlutföllin til þessara ræktunarvega verði hin sömu og áður. Í Vestmannaeyjum og í Hornafirði leggur ríkissjóður fram 2/3 til ræktunarvega, gegn 1/3 annarsstaðar að, af því að á þeim stöðum er um ríkiseign að ræða, og því meir sem þær eru bættar og skilyrði veitt til aukinnar ræktunar, því meiri tekjur fær ríkissjóður af þeim í aðra hönd. Ræktunarlöndin eru leigð út og ríkið fær af þeim allríflegar tekjur, sem fara vaxandi. Á Akranesi er allt öðru máli að gegna; landið er þar privateign og einstakir menn njóta þar arðsins og leigunnar af aukinni ræktun. Þess vegna er framlag ríkissjóðs til ræktunarvega þar ákveðið ¼ gegn 3/4 hlutum annarsstaðar að. Um síðasta lið XXXIV brtt. er það að segja, þar sem ætlazt er til, að skrifstofukostnaðurinn við rafmagnseftirlit ríkisins verði lækkaður um 1000 kr., þá er tilgangurinn sá, að þetta eftirlit beri sig sjálft, og ætlast n. til, að því verði hagað þannig.

Þá flytur fjvn. á sama þskj. nokkrar brtt. undir XXXIX. lið, og eru sumar þeirra aðeins orðabreytingar. Fyrsti liður er um styrk til sjúkrasjóðs verkamanna á Akureyri, við 17. gr. 18. Sú kona, sem getið er um samkv. 3. lið, er látin, og þess vegna fellur sá eftirlaunastyrkur burt. En í síðasta liðnum eru ákveðin eftirlaun til handa ekkju prófessors Guðmundar G. Bárðarsonar, Helgu Finnsdóttur, 600 kr. á ári.

Samkv. XLII. brtt. er felldur niður eftirlaunastyrkur Ólafar Sigurðardóttur frá Hlöðum, sem nú er látin.

Þá er það loks XLIX. brtt. á sama þskj., þar sem ákveðið er, að ríkissjóður taki ábyrgð á allt að 60 þús. sterlingspunda láni, sem Eimskipafél. Ísl. ætlar að fá í Englandi og greiða með því skuldir félagsins í Danmörku, ásamt afborgunum í Hollandi, gegn fyrsta veðrétti í eftirtöldum skipum félagsins: Gullfossi, Goðafossi, Dettifossi og Lagarfossi. Samkv. því, sem getið er um í erindi Eimskipafél. til Alþingis, þá eru þessi lánskjör í Englandi mjög hagstæð fyrir fél. Jafnframt þessari tilfærslu lánanna frá Danmörku til Englands getur E. Í. flutt vátryggingar sínar frá Danmörku og fengið þær ódýrari í Englandi. En hingað til hafa Danir sett það skilyrði, að félagið vátryggði skip sin í dönskum tryggingarstofnunum á meðan það hefði þar samningsbundin lán. Þetta út af fyrir sig sparar félaginu nokkra tugi þúsunda kr. árlega, og það er beinn hagnaður. Það er ánægjulegt að geta losað Eimskipafél. undan þessari áþján, sem danskir bankar hafa bakað því undanfarið, og bætt þannig kjör þess bæði beint og óbeint. Ég hygg líka, að um það séu ekki deildar skoðanir, að þessu fylgi engin áhætta fyrir ríkissjóð, þar sem um er að ræða fyrsta veðrétt í 4 beztu skipum félagsins til tryggingar gagnvart ábyrgðinni.

Þá kem ég að XXI. brtt. á þskj. 376, 1. lið, frá fjvn., þar sem meiri hl. fjvn. leggur til, að felld verði úr fjárlfrv. heimild til þess fyrir ríkisstj. að kaup. sýslumannshúsið í Borgarnesi. Það er ljóst, að n. stendur ekki öll að þessari till., eins og sjá má á þeirri brtt., sem ég flyt um þetta atriði á þskj. 386. — Hv. frsm. fyrri kaflans getur mælt fyrir þessari brtt. meiri hl. n., ef hann sér ástæðu til þess.

Þá flytur n. undir 2. lið brtt. við sína eigin brtt. frá 2. umr. viðvíkjandi endurgreiðslu úr lífeyrissjóði embættismanna, að í stað VI. og VII. tölul. 22. gr. um endurgreiðslu úr lífeyrissjóði til Sig. Kristjánss. fyrrv. kennara og Jóns Halldórssonar fyrrv. ríkisféhirðis komi: „að greiða eftirlaunasjóði starfsmanna Landsbankans vegna Jóns Halldórssonar úr lífeyrissjóði embættismanna það fé, sem hann hefir greitt í sjóðinn“. Upphaflega voru þessar endurgreiðslur úr lífeyrissjóði heimilaðar vegna símameyja, er látið höfðu af störfum sínum, og fleira hefir komið á eftir, þannig að hér virðist vera tekin úr stífla fyrir kröfum um slíkar endurgreiðslur. Má ætla, að úr því kunni að verða óviðráðanleg skriða, ef eigi eru settar skorður við. Hinsvegar álítur n. rétt, að lögin um lífeyrissjóð embættismanna verði endurskoðuð. Lífeyrissjóðurinn vex ört, og virðist svo sem gjöld til hans megi vera hlutfallslega lægri en nú er. Það sýnist vera vafasöm krafa að ætlast til þess, að lagt sé hátt á 2. hundrað þús. kr. í sjóðinn árlega á slíkum tímum. Þess vegna beinir fjvn. þeirri ósk til hæstv. stj., að lögin um lífeyrissjóð embættismanna verði endurskoðuð og breytt ákvörðunum um gjöld embættismanna til sjóðsins og um endurgreiðslur úr honum.

Á þskj. 276 er ennfremur XXV. brtt. frá n., um að ríkissjóður ábyrgist allt að 100 þús. kr. lán fyrir Vestmannaeyjakaupstað, gegn fullum tryggingum. Fyrir n. lá erindi um þetta, og taldi hún ekki annað fært en að veita kaupstaðnum þessa umbeðnu hjálp. Ástæður bæjarfélagsins eru erfiðar; það hefir orðið að grípa til ýmsra skyndilána til árlegs rekstrar. En hinsvegar er nokkur von um að fá erlent lán með betri kjörum, þannig að bærinn getur converterað skyndilánunum á þann hátt. Það mun mörgum þykja undarlegt, þar sem sagt er í brtt., að ábyrgðin skuli veitt gegn fullum tryggingum. En n. gerir ráð fyrir töluverðum tekjuauka fyrir bæjarfélagið samkv. lögum, sem nú eru um það bil að hljóta afgreiðslu í Ed., og ætlast n. til, að þær tekjur verði notaðar til greiðslu á þessu láni, og verður þá að breyta orðalagi tekjufrv. í þá átt.

Loks kem ég að síðustu brtt. n. á þskj. 386, VI, um að á eftir 24. gr. komi ný gr.

(25. gr.): „Ríkisstj. er heimilt, ef hún telur bera til þess brýna nauðsyn, að draga af öllum fjárveitingum fjárlaganna, sem ekki eru lögum bundnar, um allt að 25%, eftir því sem við verður komið, og ennfremur að fresta um ákveðinn tíma rekstri stofnana“. — Ég vil geta þess til skýringar þessari till., að fjvn. telur afgreiðslu fjárl. ekki eins varlega og vera ætti. Það liggur ekki ljóst fyrir ennþá, hvað samþ. verður á þessu þingi af tekjuaukalögum, né heldur hvað áætla þarf til þess að draga úr kreppunni vegna bænda, eða hvað gera þarf fyrir verkafólkið í kaupstöðunum til atvinnubóta. — Vitanlega er ekki hægt að láta afgreiðslu fjárl. bíða eftir niðurstöðu þessara mála. N. telur rétt að veita stj. þessa heimild, til þess að hún geti beitt henni, ef ástæður þykja til. Það er og mikilsverð ástæða fyrir þessari till., hversu langur tími líður frá því að gengið er frá fjárl. og þangað til þau koma til framkvæmda. Getur margt breytzt á því tímabili til hins lakara. — Ég mun ekki víkja að brtt. einstakra þdm. fyrr en þeir hafa mælt fyrir þeim sjálfir.