31.03.1933
Efri deild: 37. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í D-deild Alþingistíðinda. (2630)

130. mál, kaup hins opinbera á jarðeignum

Flm. (Jón Baldvinsson):

Við athugun, sem fram hefir farið í sambandi við störf mþn., er unnið hefir að málefnum landbúnaðarins á undanförnum árum, kom það í ljós, að nokkuð mikill hluti af jarðeignum landsins er í leiguábúð. Eftir þessum upplýsingum voru 45% af jörðum í leiguábúð, og þá rösklega helmingur í sjálfsábúð. Þetta hafa sjálfsagt verið nokkuð óvæntar upplýsingar fyrir þá, sem hafa mest talað og barizt fyrir ágæti sjálfseignarábúðarinnar, og einkum þegar tillit er tekið til þess, að jarðeignir hins opinbera hafa um langt áraskeið verið seldar í stórum stíl. Að vísu mun nokkur hluti þessara jarða, sem í leiguábúð eru, vera eign ríkissjóðs eða kirkjujarðasjóðs. Það er talið, að 800 jarðir séu opinber eign. En ekki er hægt að sjá skiptingu á þeim milli ríkissjóðs og kirkjujarðasjóðs, og ekki heldur, hvort jarðir, sem eru eign bæjar- og sveitarfélaga, eru taldar með, en líklegt er þó, að svo sé.

Á síðustu árum hefir nokkuð verið unnið að undirbúningi þess að bæta kjör leiguliða. Fyrir undanförnum þingum hefir legið í frv.formi stór lagabálkur um endurbætur á þessu efni. Er sá lagabálkur kominn frá mþn. Það hefir komið fram í nál. um þetta mál, að hjá leiguliðum ríki hin mesta óvissa yfirleitt um framtíð sína. Stuttur ábúðartími, óhæg aðstaða vegna jarðnæðis, sem er einstaklingseign. Og þótt gengið væri svo frá ábúðarl., að þau tryggðu lífstíðarábúð, forkaupsrétt og fleiri slík fríðindi, þá er hægt að fara í kringum þau ákvæði. Það má t. d. selja jörðina, og verðið getur verið hærra en svo, að leiguliði fái við ráðið. Það þarf ekki að nefna mörg dæmi þess, að jarðir hafi verið seldar hærra verði á undanförnum árum en svo, að þær gæti svarað vöxtum af kaupverðinu. Þau dæmi eru alkunnug. Ég vil aðeins minna á eitt: Stór og góð jörð, með góðum byggingum og vel hirt og sem auk þess hafði talsverð hlunnindi, var seld árið 1909 fyrir 7 þús. kr. Árið 1931 er hún líka seld og undan henni tekin hlunnindin, sem meta mátti 50% af kaupverði. En þá er jörðin seld á 30 þús. kr., hlunnindalaus. Mörg slík dæmi má finna, að jarðir hafa verið seldar svo háu verði, að bændur hafa þess vegna komizt í hærri skuldir en svo, að búreksturinn beri þær. Þessi atriði tvö, ótrygg ábúð leiguliða og jarðakaup bænda fyrir of hátt verð, hafa mjög þrengt að kosti þeirra. Einkum er þetta áberandi eftir að verð á afurðum búanna stórféll. Það væri þó ekki hið versta, ef þetta væri aðeins stundarfyrirbrigði, sem varaði jafnlengi kreppunni. Hitt er alvarlegra, að margir, þar á meðal bændur, eru farnir að sjá, að allt þetta strit, sem lagt er í sölurnar til þess að teljast sjálfseignarbændur, er ekki eins heppilegt fyrirkomulag og menn höfðu vænzt, er sú stefna hófst. Menn eru farnir að sjá, að eignarrétturinn á jörðunum kostar einstaklingana og bændastéttina í heild mikið fé. Hver kynslóð, ein eftir aðra, verður að kaupa jarðirnar. Þótt jarðir gangi frá foreldrum til barna að erfðum, þá er oftast svo, að systkinin eru mörg, og verður þá barnið, er jörðina hlýtur, að leysa hana út til systkina sinna. Við það kemst sá, sem að jörðinni situr, í skuldafjötra, sem hann losnar seint og jafnvel aldrei úr. Og í sumum tilfellum er jörðin tekin upp í skuldir. Einhver annar kaupir, og sami leikurinn hefst á ný. Og mikið af þeim peningum, sem bændur eru sí og æ að greiða fyrir jarðirnar, flyzt burt úr sveitinni og dregst út úr landbúnaðinum á einn eður annan hátt.

Það er af þessum ástæðum, að kaup hins opinbera á jarðeignum landsins er komið á dagskrá þjóðarinnar. Frá upphafi voru að vísu til menn á Alþ., sem voru mótfallnir þjóðjarða- og kirkjujarðasölunni, einkum þó hin síðari ár. En nú er þetta mál mikið rætt af bændunum sjálfum, og jafnvel rætt á þingmálafundum. Ég minnist þess, að í einni þingmálafundargerð hefi ég séð, að samþ. var áskorun til þingsins um, að ríkið kaupi allar jarðeignir af bændum landsins og tryggi þeim afnotarétt jarðanna með erfðaábúð, gegn viðráðanlegri leigu. Ég hefi því, til þess að hrinda málinu af stað, borið fram þáltill. um, að skipuð verði mþn., sem athugi þetta mál og geri till. um það, á hvern hátt kaup ríkisins á jarðeignum bænda geti farið fram. Það er efalaust vandamál að koma þessu fyrir svo vel sé, ef kaupa á upp allar jarðeignir, sem nú eru einstaklingseign, og greiða þær, einkum ef þetta á að gerast á skömmum tíma. Og þótt tillögur hafi komið fram um þetta frá ýmsum mönnum landbúnaðarins, t. d. frá Páli Zóphóníassyni ráðunaut, um fyrirkomulag á þessu, þá vildi ég samt heldur velja þá leiðina, að þetta væri athugað í mþn., en að bera nú þegar ákveðnar till. fram í frv.formi.

Ég geri ráð fyrir því, að þetta þyki svo mikilsvert mál, að rétt sé að það verði athugað í n. Mér hefir helzt dottið í hug að leggja til, að því verði vísað til landbn., þótt ég játi, að það gæti líka átt heima í fjhn. — Ég vil vænta þess, að hv. d. leyfi, að málið verði rannsakað í n., og vona, að sú n., er fær það, leggi rækt við athugun þess. Ég fyrir mitt leyti tel, að hér sé að ræða um þýðingarmikið spor, er gangi í þá átt að gera landbúnaðinn öruggari hér á Íslandi, ef það kemst í framkvæmd.