29.03.1933
Efri deild: 37. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í D-deild Alþingistíðinda. (2633)

130. mál, kaup hins opinbera á jarðeignum

Jón Jónsson:

Hv. 2. landsk. vildi ekki kannast við það, að neyðarástand það, er nú ríkir hjá bændastéttinni, væri aðalorsök þess, að hann hefði komið fram með þáltill. þessa nú. Þetta kann rétt að vera. En þó er það grunsamlegt, að þetta skyldi vilja svona til. Annars má vel vera, að hann hafi rætt þetta eitthvað í flokki sínum áður.

Þá benti hv. þm. á ýms dæmi þess, að leiguliðar færu vel með jarðir sínar og leigulönd. Mér dettur ekki í hug að mótmæla þessu; það er sem betur fer í mörgum tilfellum rétt. Jafnframt benti hv. þm. á það, að hversu góð löggjöf sem sett væri um ábúðarrétt manna á jörðum, þá yrði þó réttur leiguliðans alltaf ótryggari en réttur eigandans. Þetta er að sjálfsögðu rétt hjá honum, og það enda þótt allmjög megi bæta rétt leiguliðans frá því, sem nú er, því svo mun jafnan verða, að „ríkari verði eign en umboð“.

Þá vildi hann halda því fram, að það í sumum tilfellum gæti verið ægilegt fyrir foreldra að hugsa til þess, að börn þeirra tækju við jörðunum. Þarna held ég, að hv. þm. fari villur vegar, því ég get miklu frekar hugsað mér það, að það sé ánægjuleg tilhugsun fyrir foreldrana að láta börn sín taka við jörðunum. Hitt getur frekar átt sér stað, að það barnið, sem fær jörðina, fari betur út úr skiptunum en hin. Annars er það svo, að eftir því sem ræktunin fer í vöxt, þá verður auðveldara að skipta jörðunum. Geta þá fleiri börn en eitt notið sömu jarðarinnar, og það verður það æskilegasta.

Þá benti hann á, þeirri staðhæfingu til sönnunar, að leigujarðir og leigulönd væru jafnvel betur hirt en þau lönd, sem væru í eigin ábúð, ýms býli, sem risið hefðu upp hér í Rvík og kringum Rvík. En þetta sannar bara ekki neitt af því, sem hv. þm. vildi láta það sanna. Hér er aðstaðan allt önnur en annarsstaðar á landinu. Já, svo allt önnur, að slíkt þolir engan samanburð.

Þá sagði hv. þm. eftir mér, að ég hefði talið rétt að leita álits bænda um þetta mál. Þetta voru alls ekki mín orð, en hinu hélt ég fram, að það væri ekki venja að flytja á Alþingi slík mál sem þetta, nema þau kæmu frá bændum sjálfum. Annars vil ég að síðustu undirstrika það, að ég teldi það neyðarúrræði fyrir bændastéttina í landinu, ef jarðirnar yrðu gerðar að opinberri eign, eins og nú standa sakir.

Dæmin, sem hv. þm. nefndi um verðhækkun jarðanna, sýna aðeins það, að það er ekki alltaf skaði fyrir bændur að eiga jarðir sínar.