09.03.1933
Efri deild: 20. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1852 í B-deild Alþingistíðinda. (2639)

80. mál, dýralæknar

Flm. (Magnús Torfason):

Það er ekki langt frv. þetta og efnið ekki mikið. Hér er farið fram á, að bætt verði við fimmta dýralækninum, sem hafi búsetu á Suðurlandi. Ég skal geta þess, að þessi krafa styðst fyrst og fremst við álit þeirra manna, sem sérstaklega hafa þekkingu á landbúnaði, og ennfremur við kröfur og beiðni þeirra manna, sem standa nú fyrir samvinnu á landbúnaðarsvæðinu þar eystra. Ég get vísað til grg. frv., en skal geta þess, að þar sem talað er um, að nauðsyn sé á dýralækni á Suðurlandi í sambandi við mjólkurbúin, þá er það svo að skilja, að ekki er talið nægilegt, að kýrnar séu skoðaðar aðeins einu sinni á ári, eins og gert er ráð fyrir í reglugerð frá 1917. Þetta eftirlit er á engan hátt fullnægjandi. Hér er ekki einungis að tala um landbúnaðaratriði, heldur einnig heilbrigðisráðstöfun, sérstaklega fyrir Reykvíkinga, sem kaupa allmikla mjólk frá búunum, og eykst það væntanlega á næstu árum. Ég vona, að þessu frv. verði vel tekið og óska, að því verði að lokinni umr. vísað til landbn.