10.04.1933
Neðri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

1. mál, fjárlög 1934

Guðbrandur Ísberg:

Ég á hér á þskj. 366 3 brtt. við fjárl. Tvær undir XXVI. og eina undir XXXVI. Ég tek þær allar í einu lagi, vegna þess að það er víst samband á milli þeirra. Þær snerta allar þrjá listamenn í tréskurði, nefnilega Ríkarð Jónsson, sem hefir starfað og starfar hér í Rvík, Guðmund Jónsson frá Mosdal, sem starfar á Vesturlandi og Geir Þormar, sem starfar á Akureyri. Þessir þrír listamenn hafa að undanförnu haft lítilsháttar styrk úr ríkissjóði. Þar sem hér er um mjög vinsæla og þjóðlega list að ræða, og þessir menn eru tvímælalaust styrksins verðir með tilliti til kunnáttu og reglusemi, og eru þar á ofan fátækir menn, sem eins og margir aðrir listamenn berjast þannig áfram, að þeir hafa rétt til hnífs og skeiðar eins og kallað er, þó að þeir hafi lítilsháttar styrk frá því opinbera, þá er það ekki réttmætt að mínu áliti að vera að reita af þeim þennan litla styrk, þó að hart sé í ári, því að vitanlega kemur harðærið niður á þeim eins og öðrum. Jafnframt því, að ég hefi borið fram till. undir XXVI. um að tekinn verði upp styrkurinn til Geirs Þormars, 600 kr., og til að undirstrika þessa kröfu, að styrkurinn verði tekinn upp aftur, þá hefi ég neyðst til að taka hina listamennina tvo með, Ríkarð Jónsson og Guðmund Jónsson frá Mosdal og gert að till. minni, að þeirra styrkir verði einnig felldir niður, ef hv. d. getur ekki fallist á að taka upp styrkinn til Geirs Þormars. Ég hefi fært G. Þ. fram fyrir R. J. Sú till. kemur fyrst til atkv. og verði hún samþ., tek ég hinar aftur. Annars vil ég gefa hv. dm. kost á að greiða fyrst atkv. um styrkinn til Geirs Þormars. Felli þeir þann styrk, neyðast þeir til, ef þeir vilja vera sjálfum sér samkvæmir, að greiða einnig hinum tillögum mínum atkvæði, að styrkurinn til hinna tveggja falli niður. Þó að ég hafi neyðzt til að hafa þessa aðferð, þá er síður en svo, að ég álíti réttmætt að styrkurinn til þessara tveggja manna falli niður. Ég hefi litlu við þetta að bæta. Ég tók það helzta fram viðvíkjandi styrknum til Geirs Þormars við 2. umr. og það er hér ekki öðru við að bæta en að um leið og það er móðgun við hann sjálfan að taka hann einan út, þá verð ég jafnframt að líta á það sem móðgun við kjördæmi mitt og Norðlendingafjórðung í heild. Geir Þormar hefir eins og hinir tveir listamennirnir, haldið fjölda námsskeiða og kennt fjölda manna. Og eins og það er viðurkennd vinsæi og þjóðleg list hér á Suðurlandi og á Vesturlandi að leggja stund á tréskurð, þá gildir það sama á Norðurlandi. Og ef það er réttmætt að fella styrkinn niður til Geirs Þormars, þá verður einnig samræmisins vegna að fella hina styrkina tvo niður. Ég vil svo ekki fjölyrða frekar um þessar till. Þetta kemur undir atkv. hv. dm. og þeim gefst kostur á að skera úr með atkv. sínu, hvort þeir vilja vera sjálfum sér samkvæmir eða ekki.