02.05.1933
Efri deild: 61. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1856 í B-deild Alþingistíðinda. (2652)

80. mál, dýralæknar

Halldór Steinsson:

Ég stend ekki upp til að andmæla þessu frv., þó að mér virðist ekki beinlínis í samræmi við fjárhagsástæður ríkissjóðs og þjóðarviljann að stofna nú ný embætti á þessum erfiðu tímum. Annars hefir hv. 3. landsk. að nokkru leyti tekið fram það, sem ég vildi segja í þessu máli.

Ég vil þá minnast á það, að eins og dýralæknaskipun er hagað nú hér á landi, þá er óhætt að segja, að meira en helmingur bænda. í landinu á alls ekki kost á að notfæra sér þær leiðbeiningar, sem dýralæknar gætu gefið fólki. M. ö. o. þessir menn eru gagnslausir fyrir meiri hluta bænda í landinu, eins og fyrirkomulagið er nú. Þetta stafar fyrst og fremst af því, hve dýralæknar eru fáir, og að sumu leyti ekki eins vel settir eins og æskilegt væri. Þess vegna vil ég leggja áherzlu á það, sem hv. 3. landsk. tók fram, að dýralæknum sé gert að skyldu, hverjum í sínum landsfjórðungi, að hafa námskeið einu sinni á ári, a. m. k. mánaðartíma. Gætu þeir menn úr ýmsum sveitum landsins, sem hafa hug á að kynna sér alidýrasjúkdóma, haft mjög gott af námskeiðum þessum. Tel ég þetta eina ráðið til að bæta úr þörfinni meðan við höfum ekki ráð á að hafa nægilega marga dýralækna. Furðar mig reyndar, að þetta fyrirkomulag skuli ekki fyrir löngu hafa verið tekið upp. Ég tel, að þó að þyrfti að borga dýralæknum einhverja sérstaka þóknun fyrir þessi námsskeið, mundi það margborga sig.

Í sambandi við það, sem ég sagði áðan, að dýralæknar væru ekki sérlega vel settir alstaðar, skal ég geta þess, að þegar dýralæknirinn í Vestfirðingafjórðungi var fluttur úr sínu héraði 1928, þá var sá nýi dýralæknir ekki látinn setjast að í Stykkishólmi, þar sem dýralæknirinn hafði alltaf setið síðan l. um dýralækna gengu í gildi 1915, heldur í Borgarnesi. Það sjá allir, að með þessu móti má segja, að enginn dýralæknir sé í Vestfirðingafjórðungi. Allir Vestfirðir og héruðin kringum Breiðafjörð mega heita alveg dýralæknislaus. Þeir, sem vilja leita dýralæknis gegnum síma, þeir fara í síma til Reykjavíkur, heldur en til Borgarness. Er því dýralæknirinn í Vestfirðingafjórðungi eiginlega aðeins fyrir Mýra- og Borgarfjarðarsýslu.

Árið 1929 flutti ég í þessari hv. deild þáltill., sem ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa upp.

„Efri deild ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að dýralæknirinn í Vestfirðingafjórðungi verði framvegis látinn hafa aðsetur í Stykkishólmi“.

Þessi þáltill. var samþ. í þessari deild, en þrátt fyrir það þverskallaðist stj., og dýralæknirinn situr enn í Borgarnesi. Mér vitanlega hafa ríkisstjórnir að jafnaði talið sér skylt að fylgja fram þáltill., svo framarlega sem nokkur möguleiki hafi verið til þess. Ég vil því, með skírskotun til alls þess, sem ég hefi sagt um þetta mál, alvarlega skora á ríkisstj. að taka þessa þál., sem ennþá er í fullu gildi, til greina hið allra bráðasta.