02.05.1933
Efri deild: 61. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1858 í B-deild Alþingistíðinda. (2654)

80. mál, dýralæknar

Halldór Steinsson:

Ég get þakkað hæstv. ráðh. fyrir það, að hann vill taka mál mitt til athugunar, og vona, að það leiði til þess, að hann færist yfir á mína skoðun. Annars er ég honum ekki samdóma um, að nægileg ástæða væri til að flytja dýralækninn, að hann gæti jafnframt haft kennslu við Hvanneyrarskólann. (Atvmrh.: Ég sagði ekkert um, að það eitt hefði verið nægileg ástæða, en að það mundi hafa verið aðalástæðan). Það er rétt, að það var borið fram sem aðalástæðan 1929, og heyrði ég ekki minnzt á aðrar ástæður í sambandi við það mál. En mér finnst hún ekki nægileg til þess að flytja dýralækninn, sem á að hafa Vestfirðingafjórðung, á annan enda héraðs síns. Ekki get ég samþ. það, að heppilegra myndi að hafa námsskeið á Hvanneyri en í Stykkishólmi, því að Stykkishólmur liggur svo að segja í miðjum Vestfirðingafjórðungi, og myndi því auðvelt fyrir menn að sækja þangað námsskeið, og vera námsmannsins yrði þar fullt eins ódýr og á Hvanneyri. Ég vona, að við nánari athugun á málinu sjái hæstv. ráðh., að Vestfirðingafjórðungur er hér nokkuð miklum rangindum beittur, sem hann verðskuldar ekki.