16.05.1933
Neðri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1863 í B-deild Alþingistíðinda. (2670)

80. mál, dýralæknar

Frsm. meiri hl. (Lárus Helgason):

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta mál. Eins og sést á nál. á þskj. 647, hefir n. ekki getað orðið á eitt sátt um málið. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt. Öllum þeim, sem hafa kynnt sér grg. frv., er ljóst, hver tilgangur þess er, sem sé sá, að bæta úr því, hvað Suðurlandsundirlendið er nú útundan með dýralækni. Dýralækni þeim, sem situr í Rvík, er ætlað að hafa eftirlit á öllu þessu svæði, en það er vitanlegt, að það er of mikið starf handa einum manni. Það er fengin reynsla fyrir því, að hann hefir ekki tíma til að gegna dýralæknisstörfum þar eystra svo sem vera þarf. (JAJ: Hefir hann svo mikið að gera innan Framsfl.?).

Það þarf ekki að eyða orðum að því, að þörf fyrir dýralækna fer alltaf vaxandi. Nú er dýralækninum í Rvík ætlað t. d. að hafa eftirlit með öllum kúabúum hér í kring, og er það svo mikið starf, að hann getur ekki sinnt lækningastörfum á svo stóru svæði sem honum er nú ætlað. Þess vegna er það, að þetta frv. er nú borið fram.

Hv. þm. Borgf. hefir gefið út minnihl.álit um frv. Það, sem hann segir þar, virðist ekki þurfa að koma í bág við fjölgun dýralækna. Það er annað, sem hann bendir þar á, að þurfi að gera. Það, sem hann vill aðallega styðja í þessum málum, eru þær rannsóknir, sem Niels Dungal hefir að undanförnu verið að starfa að, en það mál er óskylt þessu frv.

Ég vil vænta þess, að hv. d. geti fallizt á þetta frv., því að allir, sem annars hugsa nokkuð um þessi mál, hljóta að viðurkenna, að þörf fyrir dýralækna er mikil, og einum manni er ómögulegt að inna af hendi öll dýralækningastörf á öllu þessu svæði, fyrst og fremst í Rvík og nágrenni hennar og svo í Árnes-, Rangárvalla- og Skaftafellssýslum. Hér er um svo miklar vegalengdir að ræða og svo mikinn fjölda búfjár, að þar getur einn einasti dýralæknir ekki nægt. Það virðist því óhjákvæmilegt að fá hér einn lækni í viðbót.

Vil ég svo vona, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.