16.05.1933
Neðri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1867 í B-deild Alþingistíðinda. (2677)

80. mál, dýralæknar

Steingrímur Steinþórsson:

Mér virðist hv. þm. Borgf. hafa sett okkur í hinn mest vanda með hinni rökst. dagskrá sinni, enda býst ég við, að það hafi verið tilætlunin með henni. En dagskráin snertir þó ekki nema að nokkru leyti það mál, sem hér liggur fyrir. Og þess vegna verð ég að gera grein fyrir því, hvers vegna ég og meiri hl. landbn. verðum að leggja til, að dagskráin verði felld.

Ég er sammála því, sem dagskráin segir um rannsókn búfjársjúkdóma og um nauðsyn þess að finna ráð gegn þeim. En mér virtist kenna nokkurs ósamræmis í ræðu hv. þm. og rökst. dagskránni. Hann var að tala um, að dýralæknar hefðu ekki starfað í sveit né verið búsettir þar. Þeir hefðu því ekki fengið tækifæri til að kynna sér af eigin raun búfjársjúkdóma. Þessu get ég vitanlega verið sammála. En ósamræmið kemur einmitt fram í því, að dagskráin leggur stein í götu þess, að sú skipun verði gerð, að dýralæknir taki sér búsetu í einu stærsta landbúnaðarhéraðinu. Frv. þetta leiðir því á rétta braut samkv. skoðun hv. þm. Borgf., og einmitt þess vegna tel ég fært að greiða því atkv. Ég vildi taka þetta fram, því einmitt af þessari ástæðu get ég greitt atkv. gegn rökst. dagskránni, en með frv.