16.05.1933
Neðri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1870 í B-deild Alþingistíðinda. (2681)

80. mál, dýralæknar

Sveinbjörn Högnason:

Það er vitanlegt, að á mörgum stöðum á landinu hefir landbúnaðurinn orðið fyrir hinum mestu skakkaföllum vegna alidýrasjúkdóma, sem gengið hafa ört yfir landið hin síðustu ár. Og þegar reynt er að veita landbúnaðinum stuðning í þeim erfiðleikum, sem yfir hann ganga nú, þá er það ekki nema eðlileg krafa, að þeim, sem ekki geta tímunum saman, og það einmitt á þeim tímum, sem helzt þarf, náð til dýralæknis, verði veittur sá stuðningur, að eiga kost á aðstoð dýralæknis.

Þótt hv. þm. Borgf. dragi í efa, að dýralæknir geti hjálpað viðvíkjandi þeim alidýrasjúkdómum, sem nú þjá landbúnaðinn mest, svo sem ormaveiki í lungum og görnum í kindum, þá hygg ég, að hann efist ekki um það, að í mörgum tilfellum er hinn mesti stuðningur að því að geta náð til dýralæknis. Einkanlega hafa ýmsir sjúkdómar í kúm á suðurlandsundirlendinu valdið miklu tjóni, svo að sumir bændur hafa misst kýr sínar fyrir það, að ekki var hægt fyrr en í ótíma að ná til dýralæknis. Það er harla einkennilegt, að stærsta landbúnaðarsveitin á landinu skuli ein vera afskipt í þessu efni. Því að þótt dýralæknir sé í Rvík, sem á að gegna skyldum þar, þá er það víst, að marga tíma — og það langa tíma — er ekki hægt að ná til hans, og það oft þegar mest liggur við. T. d. var það svo í vetur, að í mörgum hreppum í Rangárvallasýslu varð lungnaormaveiki í sauðfé mjög skæð. Við henni hefir einn dýralæknir, Jón Pálsson, fundið gott meðal, sem verkar vel, að talið er, þar sem það er notað á réttum tíma. Þessu meðali er sprautað í barka kindanna. Þegar ormaveikin gerði vart við sig þarna austur frá, vildu bændur reyna þetta meðal. En ég held, að tveir mánuðir hafi liðið frá því að þeir báðu um að fá dýralækni og þangað til hægt var að koma því við að fá hann. Og það er fullyrt, að þar sem þessi lækningaraðferð var reynd, þar hafi hún ekki nærri komið að eins miklum notum og við hefði mátt búast, ef reynd hefði verið í tíma. Fjöldamargir bændur hafa í vetur og vor misst ekki svo lítið af fénaði sínum einmitt úr þessari veiki. Ég er sannfærður um það, eftir þeim tilraunum, sem hjá okkur hafa verið gerðar um þetta meðal, að það hefir mjög góð áhrif, ef það er notað í tíma. Marka ég það einkum af þeirri reynslu, sem ég hafði sjálfur í þessu efni af tilraunum til lækninga á mínu eigin fé.

Af greindum ástæðum tel ég það alls ekki sanngjarnt, ef á að neita þessum héruðum, sem nú hafa ákaflega mikla þörf fyrir dýralækni, um þá hjálp, sem hægt er að veita þeim með því að gefa þeim kost á að njóta starfs dýralæknis, þegar margskonar erfiðleikar í búskapnum steðja að úr öllum áttum auk þessara sjúkdóma í búfénu. Og ég vona, að þm. sjái í þessu efni hina brýnu nauðsyn bænda á þessu svæði og samþ. frv. eins og Ed. hefir afgr. það.

Ég játa, að það er að mörgu leyti rétt, sem hv. þm. Borgf. tekur fram í dagskrártill. sinni, að æskilegt sé, að fé verði veitt til þess að gera ýtarlegar tilraunir. En það sannar ekki, að ekki sé þörf á að hafa dýralækni fyrir austan fjall, og á þeirri hjálp, sem það getur veitt.