02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í D-deild Alþingistíðinda. (2698)

176. mál, mat tekna af eigin húsnæði til tekjuskatts

Fyrirspyrjandi (Pétur Halldórsson) [óyfirl.]:

Herra forseti! Ég þarf ekki að bæta mörgum orðum við þessa fyrirspurn til skýringar. Hún skýrir sig að mestu leyti sjálf. En það er að sjálfsögðu, að þeir skattþegnar, sem búa í eigin húsum, verði að telja sér tekjur af því húsnæði, sem þeir nota sjálfir, og er þetta einn liðurinn í þeirra skattskyldu tekjum. Nú er það svo, að því er mér hefir skilizt, að venjan hefir verið hér í Rvík síðustu árin að meta þennan lið í tekjum manna á þann hátt að miða við brunabótavirðingu húsanna, m. a. vegna hverri hundraðstölu bætt á þessa virðingu, til þess að fá út þá upphæð, sem talin er til tekna fyrir húsnæði. Það mætti e. t. v. í sjálfu sér telja það aukaatriði, hvernig þetta er reiknað, ef það er gert á sama hátt á öllum stöðum á landinu, en þó þykir mér óviðkunnanlegt að meta þetta með hundraðshluta af brunabótavirðingu húsanna, og ein þess, að þá kemur ekki til greina í matinu, hvar húsið stendur, hvort það er á dýrri eða ódýrri lóð, stórri eða lítilli, og það er þó að sjálfsögðu atriði, sem alltaf verður að taka tillit til í þessu sambandi. En aðalatriðið er það fyrst og fremst, að framkvæmd á þessu atriði skattalöggjafarinnar sé lík á öllum stöðum á landinu, og efni fyrirspurnarinnar er það, að fá upplýst, hvernig þessu sé varið hér í Rvík, og þá til samanburðar um þær reglur, sem fylgt er annarsstaðar á landinu. Ég tel ekki rétt, áður en hæstv. ráðh., sem góðfúslega hefir viljað svara þessu, hefir gefið sitt svar, að fara lengra út í málið. En ef svar hans gefur að einhverju leyti tilefni til þess, þá vil ég eiga kost á því að segja nokkur orð á eftir.