02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í D-deild Alþingistíðinda. (2699)

176. mál, mat tekna af eigin húsnæði til tekjuskatts

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Eins og kunnugt er, þá er svo til ætlazt í tekju- og eignarskattslögum, að leiga sé metin fyrir eigin íbúð, og mun vera svo ákveðið í hinni almennu reglugerð, að hún skuli metin eftir samanburði við leigu á sama stað. Hér í Rvík mun þetta hafa verið framkvæmt þannig, að þar, sem hægt var að fá samanburð við aðra leigu, þá er sú regla höfð; að meta húsnæðið til tekna eftir því, hvað fást myndi fyrir það, ef það væri leigt út. Hinsvegar mun það vera svo, að það er æðimikið af íbúðum, og þá einkum hinar svonefndu „villur“, sem hafa stórar lóðir og stóra íbúð, sem erfitt eða ókleift er að fá samanburð um, vegna þess, að hliðstætt húsnæði er ekki leigt út. Hér er því gripið til þess að miða leiguna við hundraðshluta af brunabótavirðingu hússins, og hefir það venjulega reynzt 8-10% — oftast 10% af brunabótamati. Þessi hundraðstala er og miðuð við það, að flest hús, sem á annað borð eru leigð út í bænum, eru leigð fyrir töluvert hærra verð. Nú mun í ár hafa verið miðað við 9% af brunabótavirðingu, og hefir það lækkað úr 10% í 9%, vegna þess að almennt mun húsaleiga hafa lækkað á árinu 1932. Þetta mat á „villum“ er að nokkru leyti gert með tilliti til þess, að slíkir bústaðir eru ekki eins og annað fé. Þessar reglur munu gilda hér í Rvík, en hvort hinar sömu eða hvaða reglur gilda annarsstaðar, er mér ekki fullkunnugt um.

Skattanefndinni hér í Reykjavík og skattstjóranum er það ljóst, að vart muni vera samræmi um framkvæmd tekju- og eignarskattslaganna að þessu leyti í Rvík og annarsstaðar á landinu. Þessum lögum er hvergi strangar eða öllu heldur réttar framfylgt en hér í Rvík, og sumstaðar mun vera nokkurt sleifarlag á framkvæmd þeirra. Stafar það sumpart af ókunnugleika og sumpart af því, að engin allsherjarregla er til að fara eftir, því reglugerðir og lög ná ekki út yfir öll atriði, sem til greina koma. Þess vegna voru á síðasta þingi samþ. lög um samræmingu á framkvæmd skattalaganna, en það eru lögin um ríkisskattanefnd. Höfuðatriði þeirra laga var að setja ríkisskattanefnd, til þess að úrskurða og samræma skattana í hinum ýmsu héruðum. Þessi nefnd var skipuð í fyrra, en starfi hennar er ekki lokið allt í einu. Hinar almennu reglur, sem nefndin hefir sent til yfirskattanefnda, eru í bréfi til þeirra, sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisskattanefndin veit, að í mati á húsaleigu eftir íbúðir til eigin afnota ríkir hið mesta ósamræmi, og henni er ljóst, að víðast er leiga metin of lágt. Kveður svo rammt að vanrækslu skattanefnda og yfirskattanefnda í því að hafa eftirlit með þessum tekjulið manna, að sumstaðar er engin leiga metin til tekna eftir eigin íbúðir og sumstaðar svo lág, að mikið tap kemur fram á rekstri húsa, sem að öllu eða verulegu leyti eru notuð af eigendum. Nær slíkt vitanlega engri átt. Samkv. skattalögum ber að meta leigu eftir eigin íbúðir eins og samskonar íbúðir eru leigðar á hverjum stað. Skattanefndum ætti að vera svo kunnugt um húsaleigu í umdæmunum, að auðvelt ætti að vera fyrir þær að færa húsaleigumatið til leiðréttingar hjá gjaldendum. Til hliðsjónar við mat á húsaleigu, einkum þar, sem lítið er leigt af húsnæði, ber að hafa raunverulega kostnaðarleigu gjaldandans og reikna þá með eðlilegum vöxtum af stofnkostnaði íbúðarinnar“.

Þá segir ríkisskattanefnd, að yfirskattanefndum beri að hafa eftirlit með því, að skattanefndir gangi vel fram í því að koma þessu í lag:

„Að svo stöddu sér ríkisskattanefndin sér eigi fært að gefa alveg fastar reglur um mat á húsaleigu á eigin íbúðum, en hún leggur hér með fyrir yfirskattanefndirnar að gera á næsta vori till. um þetta atriði til ríkisskattanefndar“.

Upp úr þessu eiga að spretta ráðstafanir um betra samræmi en áður, og á það að vera komið í kring áður en næsta árs skattur verður lagður á. Það er því þegar kominn skriður á það mál að koma á því samræmi, sem lögin ætlast til. Og á því samræmi eiga vitanlega allir skattgreiðendur heimtingu.