29.04.1933
Neðri deild: 59. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1882 í B-deild Alþingistíðinda. (2717)

161. mál, tollalög

Jón Auðunn Jónsson:

Ég býst við, að þessi tollhækkun lendi á neytendum. Ég hefi átt tal við framleiðendur kaffibætis, og þeir segja, að sú framleiðsla beri sig ekki svo vel, að hún þoli neinn viðbótarkostnað. Slíkt mætti frekar hugsa sér með ölframleiðsluna, þar sem hún er nú rekin af aðeins einu félagi. Þó mun þetta fyrirtæki ekki hafa gefið góðar tekjur síðastl. ár. Framleiðslan hefir minnkað til muna. Einkum hefir salan í einn landsfjórðunginn minnkað stórkostlega. Má vera, að það standi að einhverju leyti í sambandi við minnkandi kaupgetu. En það mun þó að miklu leyti stafa af því, að menn eru farnir að búa það til sjálfir á heimilunum til eigin þarfa og einnig til sölu. Ég er hræddur um, að slík framleiðsla aukist, ef tollurinn verður hækkaður svo mikið, sem hér er ráð fyrir gert. 47% hækkun á annari tegundinni og 84% hækkun á hinni er ekki smáræði. Ég tel varhugavert að taka svo stór stökk í einu. Betra væri að fara af stað með minna. Síðar mætti svo hækka tollinn meira, ef reynslan sýndi, að neyzlan færi ekki til stórra muna niður.