29.04.1933
Neðri deild: 61. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1886 í B-deild Alþingistíðinda. (2726)

161. mál, tollalög

Frsm. (Hannes Jónsson):

Það er mjög mikil viðkvæmni, sem kemur fram hjá hv. þdm. gagnvart þessu frv. Ég er undrandi yfir þeim áhuga, sem kemur fram í því að lækka þennan tollauka, sem hér kemur fram á öli, þegar þess er gætt, að tollurinn eftir lögunum frá 1921 er 38 aurar á hverjum lítra, að viðbættum 25% gengisviðauka. En eftir þessu frv. verður tollurinn aðeins 18 aurar á lítra. Virðist því sæmilega vel farið með ölgerðirnar, að láta þær sleppa með að borga 18 aura, þegar ríkissjóður hefir fengið 38 aura af samskonar öli, sem flutzt hefir inn í landið, eftir lögunum frá 1921.

Ég get frekar skilið ástæður manna fyrir því að bera fram lækkun á tolli á kaffibæti. En það er ekki fyrir það, að ég telji, að hann sé óeðlilega hár, því að tollurinn er lægri en greiðzt hefði í ríkissjóð, ef kaffibætirinn flyttist inn í landið í staðinn fyrir að framleiða hann hér.

Þess ber að gæta, að á undanfarandi árum hefir ríkissjóður tapað stórfé vegna þeirra ráðstafana, sem gerðar voru með l. frá 1927 og 1931. Þetta tap hefir vitanlega komið fram í auknum eignum hjá þessum framleiðslufyrirtækjum. Þegar þess er gætt, að þetta frv., ef að l. yrði, gæti alls ekki gilt lengur en til 1935, þar sem þá falla úr gildi lögin frá 1927 og 31, þá sýnist ekki of hart að gengið.

Að því er snertir ölið vil ég benda á það, að örðugt mundi að framkvæma lögin, ef annar tollur yrði greiddur af hvítöli en öðru öli, enda er það ástæðulaust, því að hjá öðrum þjóðum er alls ekki gerður greinarmunur á þessum öltegundum. Það, sem þær gera greinarmun á, er það, hvert áfengismagnið er. En hér er ekki um neitt áfengismagn að ræða. Báðar öltegundirnar eru óáfengar og eiga því að vera undir sömu lagaákvæðum. En að haga tollálagningunni þannig, að gera mismun á þessum tveimur öltegundum, mundi ef til vill verða til þess að gera ölgerðunum ennþá erfiðara fyrir um starfrækslu sína en annars þyrfti að vera. Því að það mundi leiða til þess, að þær mundu reyna að auka framleiðsluna á hvítöli til þess að sleppa við hina ölgerðina.

En um nauðsynina á því að ívilna með toll á hvítöli með tilliti til þess, að það sé notað svo mikið með mat, þykir mér veigalítil ástæða. Ég hygg, að hv. þm. Ak. flytji þessa brtt. aðallega með tilliti til einnar ölgerðar á Akureyri, sem lengi hefir framleitt hvítöl. Mér er ekki kunnugt um, að það sé mikið keypt til þess að hafa á borðum með mat. Nei, það er selt og drukkið í afgreiðslubúðum ölgerðarinnar. Ég sé ekki nokkra ástæðu til þess að gera sérstakar ráðstafanir út af hvítöli eða hafa annan tollstiga á því.

Tollurinn nemur, eins og ég hefi tekið fram, 47%, ef ölið væri flutt inn í landið. Og þessi tollur er ekki meiri en svo, að hann nemur um 4 aura á hverja flösku, og ætti það alls ekki að hafa áhrif á öldrykkjuna. Auk þess hefir verið mikill hagnaður á framleiðslunni, svo að hún gæti auðveldlega tekið á sig helming byrðarinnar til þess að halda markaðinum við. Þess ber að gæta, að tolllögin frá 1927 og 1931 hafa verkað svo rækilega og tekizt svo vel, að ekkert hefir verið flutt inn af þessum vörutegundum. Það hefir því verið misgáningur af löggjafarvaldinu að tiltaka þennan tíma allt til ársins 1935, því að tilgangurinn með þessum lögum var sá, að hægt yrði að koma upp framleiðslu í þessum greinum í landinu sjálfu. Þetta hafa lögin nú gert, svo að fyrirtækin þurfa ekki að óttast erlenda samkeppni, og þau halda sömu aðstöðu áfram, svo að ekki kemur til mála, að innflutningur verði að tjóni. En því ber ekki að neita, að með þessari till. hækkar tollurinn, og er það gert til þess að ná því inn, sem ríkissjóður afsalaði sér 1927 og 1931.