29.04.1933
Neðri deild: 61. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1891 í B-deild Alþingistíðinda. (2730)

161. mál, tollalög

Frsm. (Hannes Jónsson):

Ég hefi litlu að bæta við það, sem hæstv. ráðh. sagði. Ég vildi aðeins taka það fram út af ummælum hv. þm. Ak., að frv. væri fram komið til þess að vernda framleiðsluna. Það er vitanlega ekki flutt til þess, heldur til að afla ríkissjóði meiri tekna.

Þá er það villandi hjá sama þm., þar sem hann talar um 80 aura toll, en frv. ákveður ekki meira en 18 aura á lítra. Það verður að athuga það, að breyt. er ekki annað en að verka á önnur lög, þar sem nú er ekkert flutt inn af þessum vörutegundum. Hæstv. ráðh. svaraði fyrirspurninni um ráðstafanir gegn okri, enda er til ráðstöfun gegn því frá neytendunum sjálfum. Þeir munu sjá um það sjálfir með því að kaupa ekki vöruna, ef hún er óhóflega dýr.

Aukinn tollur verður 4 aurar á flöskuna. Ég geri ráð fyrir því, að fyrirtækin hafi grætt á framleiðslunni, og ég veit það með vissu. Þá gætu þau ósköp vel tekið dálítið af gróðanum og borgað eitthvað af tollinum, svo að flaskan þyrfti ekki að hækka nema um 2 aura.

Það er fjarstæða hjá hv. þm. Ak. að halda því fram, að hvítöl eigi að heyra undir gosdrykki, en ekki undir öl, og ég er hissa, hvað hann virðist vera djúpt sokkinn niður í hvítölið á Akureyri, að hann skuli ekki sjá tilgang frv. Ég er líka hissa á hv. þm. N.-Ísf., að telja þessa hækkun gífurlega, þar sem hún nemur ekki nema 4 aurum á flöskuna. Og ég hygg, að menn drekki engu síður öl fyrir því, þó að flaskan hækki um 2—4 aura.

Um kaffibætinn er það að segja, að það hefir verið kapphlaup um að koma upp þessum fyrirtækjum. Verði nú ekki hægt að keppa með þessari tollhækkun, þá dragast þessar verksmiðjur saman í eina, alveg eins og ölgerðin, og þá verður framleiðslan ódýrari og hægt að selja hana þrátt fyrir 84% álagningu.