29.04.1933
Neðri deild: 61. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1891 í B-deild Alþingistíðinda. (2731)

161. mál, tollalög

Guðbrandur Ísberg:

Hæstv. fjmrh. sló því fram, að hér væri í rann og veru einokun á þeim vörum, er í frv. greinir, og hann hefir sjálfsagt vitað, hvað hann sagði. En ef svo er, þá hefði ég endurtekið fyrirspurnina, ef ráðh. hefði verið viðstaddur, um það, hvaða ráðstafanir væru gerðar til þess að hindra, að verðið hækki úr hófi við tollhækkunina. Mér skilst sem sé, að hinum innlendu framleiðendum sé unnt að hækka verð á framleiðsluvörum þeim, er tollhækkunin nær til, allt að þeirri upphæð, er tollhækkuninni nemur, án þess að þurfa að óttast erlenda samkeppni. Og það mundi koma hart niður á neytendunum, ef þeir gera það, en engan veginn þó líklegt að þeir hætti að kaupa, þótt þeir hinsvegar kunni að draga úr neyzlunni.

Viðvíkjandi hvítölinu, þá er það, eins og ég hefi bent á, sem næst helmingi ódýrara en aðrar öltegundir, en þessi tollur mundi gefa framleiðendunum aðstöðu til þess að selja það jafndýrt og annað öl. Þá dettur vitanlega engum í hug að kaupa það fremur. Þeir, sem keypt hafa hvítöl með mat, verða annaðhvort af því eða kaupa annað í staðinn.