11.04.1933
Neðri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

1. mál, fjárlög 1934

Björn Kristjánsson:

Ég á að þessu sinni engar brtt., sem ég þarf að tala um, og ætla mér heldur ekki að fara að tala hér um brtt. annara hv. þm., en ég vildi aðeins beina þeirri fyrirspurn til hv. frsm. samgmn., þm. N.-Ísf., hvort það skilyrði hafi ekki verið sett fyrir styrk til Eyjafjarðarbátsins, að hann færi austur á Skjálfanda, Axarfjörð og Þistilfjörð. Í till. n. er gert ráð fyrir, að Eyjafjarðarbáturinn fái 45 þús. kr. styrk, enda fari hann 5 áætlunarferðir til Grímseyjar á ári hverju. Af því að þetta er tekið fram með Grímseyjarferðirnar, datt mér í hug, að önnur skilyrði hefðu ef til vill verið látin falla niður. En styrkur til þessa báts hefir alltaf verið bundinn því skilyrði, að hann færi nokkrar ferðir austur eftir og kæmi við á Flatey, Húsavík, Kópaskeri, Raufarhöfn og Þórshöfn. Hafi þetta skilyrði verið látið niður falla, verð ég að lýsa óánægju minni yfir því, en vona, að svo sé ekki og að það verði látið standa hér eftir sem hingað til.