18.05.1933
Efri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (2742)

161. mál, tollalög

Jón Baldvinsson:

Ég vil aðeins lýsa afstöðu minni til þessa frv. í stuttu máli. Ég tel, að tollahækkun, sem kemur fram á vörum, er almenningur notar sem nauðsynjar, sé mjög ranglát. Það má að vísu segja, að ekkert skaði, þó að öl sé tollað talsvert hátt, en allt öðru máli er að gegna um hinn gífurlega toll af kaffibæti. Almenningur kaupir þessa vöru í stórum stíl, og tollahækkun, sem kæmi niður á henni, yrði einn þátturinn í því, að auka þá miklu dýrtíð, sem nú er hér í landinu. Þó mun nú þegar svo komið, að Ísland sé eitt af dýrustu löndum í heiminum að lifa í.

Ég ætla því að greiða atkv. á móti frv., þó að í því sé vörutegund tekin með, sem mér þætti skaðlaust, að aukinn yrði tollur á.