18.05.1933
Efri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1896 í B-deild Alþingistíðinda. (2744)

161. mál, tollalög

Jón Baldvinsson:

Það kom fram í ræðu hæstv. forsrh., sem var vitað áður, að sá íslenzki iðnaður, sem hér um ræðir, hafi þrifizt í skjóli tollaívilnana. Af því leiðir, að verð á þessari íslenzku vöru verður hærra en annars myndi. Og framleiðendur nota auðvitað tollhækkunina sem tækifæri til þess að setja upp verðið, og sú hækkun nemur vafalaust meiru en tollahækkunin, því við hana bætist álag stórsala og smásala. Annars er það ekki heilbrigt fyrirkomulag, að íslenzkur iðnaður þrifist í skjóli hárra tolla. Það er auðvitað gott fyrir þá menn, sem græða á því, en almenningi kemur slíkt illa.