29.04.1933
Efri deild: 59. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1898 í B-deild Alþingistíðinda. (2755)

163. mál, sýsluvegasjóð

Frsm. (Einar Árnason):

Aðalbreyt., sem þetta frv. gerir á 1. um sýsluvegasjóði, felst í 1. gr. og er um það, að vegaskattur af húsum verði helmingi lægri en af löndum og lóðum. Í núgildandi 1. um sýsluvegasjóði er ákveðið, að í þeim sýslum, sem l. nota, skuli lagður vegaskattur á allar fasteignir innan sýslunnar, og þá jafnhár bæði á hús, lóðir og jarðir. Þessi skattur getur verið misjafnlega hár eftir árlegri ákvörðun hlutaðeigandi sýslunefndar, allt frá 1½‰ til 6‰ af fasteignamati, og má skatturinn ekki vera hærri, nema með sérstöku leyfi ráðh. Þessi l., sem hér er um að ræða, hafa verið notuð í 9 sýslum á landinu, að ég ætla, og framkvæmd þeirra hefir orðið til þess, að í þeim sýslum hefir vegagerð mjög fleygt fram, því að sýslurnar hafa lagt á sig mjög mikil gjöld í því skyni að fá á móti tillag úr ríkissjóði. Ég skal t. d. henda á, að ein sýslan hefir sjálf lagt fram yfir 100 þús. kr. á síðustu 4 árum og fengið annað eins úr ríkissjóði, svo að á þessum fáu árum hefir sýslan lagt vegi fyrir rúmar 200 þús. kr. Því er ekki að neita, að þetta hefir verið allþungur skattur á þeim sýslufélögum, sem hafa notað l. En samkv. hinu nýja fasteignamati, sem nú er komið í gildi, verður þessi skattur þó enn þyngri en áður, ef ekki eru neinar breyt. gerðar á 1. Það er eins og menn vita, að fasteignamatið hefir víða hækkað um 1/3, og þá verða sýslurnar að leggja á sig þriðjungi hærri gjöld til þess að geta fengið hlutfallslega á móti úr ríkissjóði. Nú er aðalbreyt., sem frv. gerir á 1., að gjald af húsum verði helmingi lægra en af löndum og lóðum. Það hefir nú raunar verið svo, að nokkur óánægja hefir ríkt hjá þeim sýslum, sem nota 1., um það, að gjaldið væri jafnhátt af húsum og löndum, og hefir hún haft við töluverð rök að styðjast. Þetta frv. gerir því hvortveggja í senn að reyna að lægja þá óánægju, sem verið hefir, og fá, úr því fasteignamat er nú miklu hærra en áður, þær breyt., að framlög sýslnanna verði ekki þyngri en þau voru áður en nýja fasteignamatið gekk í gildi.

2. gr. frv. er að mestu tekin orðrétt úr 1. frá 1927, sem eru breyt. á sýsluvegal. frá 1923. Í þeim 1. fólst heimild til að hreppsn. mætti jafna þessum fasteignaskatti niður með útsvörum. Þá heimild hafa ýmsir hreppar innan þeirra sýslna, sem komu á samþykktum um sýsluvegasjóði, notað. En þó hefir verið jafnan nokkur óánægja út af þessu ákvæði líka, þar sem svo hefir staðið á, að einstöku bændur hafa átt dýr hús á jörðunum, en aðrir lítil. Þá myndast nokkur ágreiningur milli þessara manna um það, hvort réttara sé að greiða skattinn beint af fasteignunum eða jafna honum niður með útsvörum.

Nefndin hefir fallizt á frv. þetta að mestu leyti óbreytt eins og það liggur fyrir og telur, að aðalatriði frv., sé til mikilla bóta frá því, sem nú er. Aðeins tvær breyt. vill n. gera. Sú fyrri er einungis um að færa eina setningu til betra máls og hefir því enga efnisbreyt. í för með sér. En hin brtt. er til orðin út af þeim ágreiningi, sem verið hefir innan sveitarfélaga um, hvernig skuli innheimta skattinn. Til eru tvær leiðir, eins og ég drap á. Önnur er sú, að skatturinn sé beint innheimtur hjá hverjum hús- eða jarðareiganda eða að skattinum sé jafnað niður með útsvörum. Í brtt. n. er reynt að miðla þarna dálítið málum, þannig að heimilt sé að fara þar millileið, t. d. að sveitarfélagi heimilist að taka helming skattsins með útsvörum, en hinn hlutinn sé innheimtur hjá ábúendum eða húseigendum beint. Þetta er millivegur, sem getur jafnað dálítið úr því, sem á milli ber, og gert ákvæði 2. gr. lítið eitt rýmri. Ég hefi borið þessa brtt. undir flm. frv., og hann er henni algerlega samþykkur. Má því vænta, að um það verði ekki ágreiningur.

Ég held, að ég þurfi ekki að taka annað fram viðvíkjandi þessu frv. Aðrar breyt., sem á 1. eru gerðar með frv., eru svo smávægilegar, að ekki þarf um þær að ræða, og vil ég því fyrir hönd n. leggja til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem fluttar eru á þskj. 470.