29.04.1933
Efri deild: 59. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1900 í B-deild Alþingistíðinda. (2756)

163. mál, sýsluvegasjóð

Jón Jónsson:

Ég get fært samgmn. þakkir fyrir, hve greiðlega hún hefir tekið undir þetta frv. og hve fljótt hún hefir afgr. það. Ég get tekið það fram, að brtt. n. tel ég til bóta eða seinni brtt. — hin skiptir litlu máli. Ég vil benda á, að það er allveruleg breyt., sem 3. gr. þessa frv. gerir á gildandi 1, og vildi þess vegna aðeins undirstrika það, til þess að það fari ekki fram hjá mönnum. Eftir henni á að miða framlög ríkisins við framlög héraðanna í heild til vega, en ekki eins og eftir núgildandi 1. eingöngu við þann skatt til sýsluvegasjóða, sem lagður er beint á fasteignir. Ég get nefnt ljóst dæmi um þetta. Hugsum okkur, að í einni sýslu séu fasteignir metnar á eina millj. kr. Til þess að sýslan fái jafnt á móti úr ríkissjóði, þarf hún að leggja á 6‰ af fasteignunum, m. ö. o. 6 þús. kr. Svo eru það margar sýslur, sem hafa tekið upp þá reglu, að þær áskilja, að hreppar eða vegafélög leggi fram tiltölulega á móti sýslunni. Í sumum sýslum er áskilið, að lagt sé fram jafnt eins og sýsluvegaskattinum nemi, í öðrum 1/3, en þetta er nokkuð mismunandi. Eftir þessu frv. á þetta fé, sem kemur annarsstaðar að, að reiknast með sýsluframlaginu, þegar reikna á út, hver ríkisstyrkurinn eigi að vera; því getur farið svo, að sýslan, í staðinn fyrir að leggja 6‰ á fasteignirnar, þurfi ekki að leggja nema 4‰ til þess að fá jafnt á móti úr ríkissjóði. Þetta gerir það að verkum, að í einstökum tilfellum getur sýslan hagað eftir ástæðum, hvernig hún jafnar niður því fé, sem þarf að koma úr sýslunni á móti ríkisstyrknum, þ. e. eitt árið getur sýslufélag lagt á 6‰ sýsluvegaskatt og krafizt einskis á móti frá hrepp eða vegafél. og fengið þá jafnt á móti úr ríkissjóði. Hitt árið getur svo sýslufél. lagt að eins á 4‰ sem sýsluvegaskatt, en krafizt jafnframt framlags frá hrepp eða vegafélögum í viðbót við sýsluvegaskattinn, sem nemi sömu fjárhæð og 2‰ sýsluvegaskattur. Í báðum tilfellum fær sýslan jafnháa fjárhæð innan sýslu og á þá líka eftir frv. að fá jafna fjárhæð úr ríkissjóði. Það komu engin mótmæli gegn þessu frá hv. frsm., svo að hann virðist þessu samþykkur, en ég vil undirstrika þetta af því að það hefir komið fyrir, að það hafi orðið misskilningur einmitt út af þessu.