02.05.1933
Neðri deild: 63. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1907 í B-deild Alþingistíðinda. (2774)

150. mál, almennur ellistyrkur

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Í þessu frv. felst ekki annað en bráðabirgðafyrirkomulag. Gert hefir verið ráð fyrir, að stjórnin undirbyggi tryggingarlöggjöf. En nú virðast horfur á, að slík löggjöf verði ekki samþ. á þessu þingi, og ef til vill ekki næstu þingum. Í frv. því, er jafnaðarmenn hafa borið fram, eru ýms atriði, sem ólíklegt er, að nái lögfestu þingsins í náinni framtíð, svo sem atvinnuleysistryggingarnar, sem flestir munu telja okkur ofviða eins og stendur.

Hv. flm. brtt. á þskj. 498 sagði, að styrkur þessi væri svo lágur, að það væri að draga dár að gamla fólkinu að veita hann. Kvað hann styrkinn oftast vera um 20—30 kr. Þessi upphæð er alveg röng hjá hv. flm. Mér er kunnugt um, að hin síðari ár hefir styrkurinn numið 50—80 kr. og þar yfir. Eftir brtt. okkar ykist hann um 40%, og ég veit, að mörg gamalmenni í sveit munar um 100 kr. Í kaupstöðum munar auðvitað minna um þetta. En í sveitum getur þessi upphæð orðið til þess í mörgum tilfellum að forða gömlu fólki frá því að fara á hreppinn.

Nefndin getur ekki fallizt á brtt. á þskj. 498. Álítur hún, að með þeim yrði innheimtufyrirkomulagið allt of margbrotið.