02.05.1933
Neðri deild: 63. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1907 í B-deild Alþingistíðinda. (2775)

150. mál, almennur ellistyrkur

Sveinn Ólafsson:

Hugsuninni, sem vakti fyrir Alþingi, þegar lögin um almennan ellistyrk voru sett 1909, er alveg bylt við með brtt. á þskj. 498. Hugsunin var sú, að allir vinnufærir og vinnandi menn legðu nokkuð til hliðar vegna gamalmennanna og þannig myndaðist sjóður til styrktar þeim. Sjóðurinn er að vísu lítill ennþá, en fer þó vaxandi með ári hverju.

Það er rétt hjá hv. þm. N.-Ísf., að upplýsingar hv. þm. Ísf. um úthlutun styrksins eru alls ekki réttar. Ég þekki ekki dæmi til þess, að 20—30 kr. hafi verið úthlutað nú síðari árin. Oftast hefir úthlutun verið, þar sem ég þekki til, neðan við eða um 100 kr. handa styrkþega hverjum, og það er svo verulegur stuðningur við gamalmenni í sveitum, að mörg þeirra telja sér borgið að miklu leyti, ef þau fá slíkan styrk í viðbót við litla atvinnu.

Með brtt. á þskj. 498 eru verulega þungar byrðar lagðar á sveitarfélögin. Gjaldið er hækkað og hvorki styrkþegar sjálfir né sveitarómagar undanþegnir, en gjaldið lagt á fáa menn með niðurjöfnun. Þessi margumtalaði jöfnuður, að taka allt af þeim fáu, sem einhverja gjaldgetu hafa, kann að mælast vel fyrir í herbúðum hv. flm. till., en ég og mínir líkar líta öðruvísi á hann. Þessi jöfnuður minnir mig á gestgjafann illræmda í grísku fornsögunni, með sængurnar tvær, langa og stutta. Jafnaðarmennska hans var sú, að leggja í löngu sængina lágvaxna menn og teygja þá, unz þeir biðu bana, en í stuttu sængina lagði hann hávaxna menn og hjó af fótum þeirra þar til rekkjunni hæfði. En saga þessi sýnir skyldleika jafnaðarmennsku í fortíð og nútíð.

Með þessari niðurjöfnunaraðferð er tekinn frá gjaldendum sá heilbrigði metnaður, að þeir geti sjálfir vitað og séð, hvað þeir leggja til almenningsþarfa.

Hér er því stefnt í öfuga átt við upphaflegan tilgang laganna frá 1909. Ég tel brtt. miða til skemmda á frv. og ógagns fyrir gjaldendur, en hæpins hagnaðar fyrir gamalmennin. Sjóðurinn mun halda áfram að vaxa sínum eðlilega vexti og tiltölulega ört eftir frv. Í brtt. við 2. gr. er gert ráð fyrir 2‰ innheimtulaunum til sýslumanna og bæjarfógeta, þetta er óþarfur byrðarauki, því að hreppsnefndir ættu að innheimta gjaldið á hverjum stað, ef gjaldinu yrði breytt í niðurjöfnun.