08.05.1933
Neðri deild: 63. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1913 í B-deild Alþingistíðinda. (2779)

150. mál, almennur ellistyrkur

Vilmundur Jónsson:

Ég skal viðurkenna, að það er galli á brtt. okkar á þskj. 498, að ekki eru sett takmörk fyrir því, hversu lágt gjald megi innheimta lægst af gjaldendum til ellistyrktarsjóðs, og er óhjákvæmilegt að ákveða lágmark þess í lögunum. En þetta má laga í Ed., þegar málið verður tekið þar til meðferðar. Að öðru leyti get ég ekki fallizt á þær aths., sem fram hafa komið við till. okkar.

Það er ákaflega einfalt reikningsdæmi fyrir sýslumenn og bæjarfógeta að ákveða upphæð ellistyrktarsjóðsgjaldsins samkv. ákvæðum till., og síðan innheimta þeir það á manntalsþingum ásamt öðrum opinberum gjöldum. Hygg ég, að sú innheimtuaðferð gefist betur heldur en að krefja það inn með útsvörum. Þó geri ég þetta ekki að neinu kappsmáli. Ég get tekið undir það með hv. meðflm. mínum, að ég vil vinna það til samkomulags um aðalatriðin í þessum till. okkar, að viðhöfð verði sú aðferð að innheimta ellistyrktarsjóðsgjöldin með útsvörum, enda verði sveitarsjóðirnir gerðir ábyrgir fyrir þeim.

Hv. 1. þm. S.-M. virtist misskilja till. okkar í ýmsum atriðum, og nenni ég ekki að leiðrétta þær meinlokur hans. Þó vil ég aðeins benda á, að samlíking hv. þm. um löng og stutt rúm á alls ekki við um þessar tillögur okkar né um stefnu jafnaðarmanna í skattamálum yfirleitt. Þvert á móti. Við viljum láta stórefnamenn bera mikil útgjöld, en leggja á efnalitla menn lítil gjöld, þannig að hlutföllin séu réttlát á milli getu og gjalda einstaklinganna. Við viljum einmitt sníða rúmin við hvers eins hæfi. En í þessum efnum hefir hv. þm. sjálfur gagnstæða stefnu, og hæfir dæmið honum sjálfum. Annars vil ég helzt fara fram á það við hæstv. forseta, að hann taki þetta mái af dagskrá í bili og fresti umr., til þess að okkur flm. brtt. geti gefizt tækifæri til að leita nánara samkomulags við n. um málið.