02.05.1933
Neðri deild: 63. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1914 í B-deild Alþingistíðinda. (2781)

150. mál, almennur ellistyrkur

Sveinn Ólafsson:

Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi beina að hv. þm. Mýr. til andsvara. Hann hélt því fram, að það væru öfugmæli hjá mér, að með brtt. á þskj. 498 væri sveitarfélögum íþyngt stórlega með auknum útgjöldum til ellistyrktarsjóðanna. En ég held, að hann hljóti að sjá það sjálfur, að þeim verður íþyngt til mikilla muna, fyrst og fremst vegna hækkunar á persónugjaldinu í ellistyrktarsjóðinn, sem eftir till. tekur til allra hreppsbúa ofan 18 ára aldurs, jafnvel ómaga og gamalmenna, en í öðru lagi af því, að gjaldinu á að jafna niður eftir sömu reglu og öðrum sveitargjöldum. Ég skil ekki, hvað fyrir hv. flm. vakir með því að auka svo mjög framlög til ellistyrktarsjóðs, einmitt á þessum erfiðleikatímum. Þeir eru þó sízt kjörnir til sjóðsöfnunar. Mér virðist fullkomin hætta á því, að þessi mikla aukning reynist sveitarfélögunum harla erfið aukabyrði, þegar nefskatturinn hverfur. Ég veit það að vísu, að á sínum tíma, þegar sjóðurinn er orðinn stærri og öflugri, þá kemur endurgreiðslan fram í auknum styrk til gamalmenna úr sjóðnum, auk þess sem ríflegri úthlutun fæst nú þegar, en frv. lýtur einmitt að hóflegri og viðráðanlegri aukningu styrks.

Þá vil ég ennfremur víkja örfáum orðum að hv. aðalflm. brtt. Mér virðist, að 4. brtt. á þskj. 498 muni ekki vera samin með fullri gát, þar sem lagt er til, að 12. gr. laganna orðist svo: „Í hverjum kaupstað og hreppi skal á ári hverju að jafnaði, ef umsækjendur hafa gefið sig fram, úthluta öllu því ellistyrktarsjóðsgjaldi, er rennur til sjóðsins það ár“ o. s. frv. Í frvgr. stendur: „ef verðugir umsækjendur hafa gefið sig fram“ o. s. frv. Þetta orð verðugir hafa hv. flm. fellt niður, og ber það ekki vott um mikla gætni í þessu efni. Þetta eina dæmi út af fyrir sig bendir á, að það hafi ekki verið sérstaklega vandað til þessara brtt., enda munu sveitarfélögin vart fagna henni, ef samþ. verður.

Ég vil ekki tefja tímann á því að ræða um, hvort frv. skuli tekið af dagskrá nú eða látið ganga til atkv. Ég læt mér það í léttu rúmi liggja, en ég mæli ekki með því, að það verði tekið af dagskrá og tel það þarflaust.