02.05.1933
Neðri deild: 63. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1915 í B-deild Alþingistíðinda. (2782)

150. mál, almennur ellistyrkur

Jóhann Jósefsson:

Þetta mál hefir fengið svo góðar viðtökur hjá hv. fjhn., að það má fullkomlega vænta þess, að það nái fram að ganga. Og þar sem nú er orðið mjög áliðið þingtímann, tel ég ekki heppilegt að taka málið út af dagskrá til þess að hv. flm. brtt. gefizt kostur á að semja við aðra þdm. um till., sem gerbreyta frv. Það gæti hæglega leitt til þess, að málið dagaði uppi. Enda er það enginn annar en hv. aðalflm. brtt., þm. Ísaf., sem óskar þess, að málið verði tekið af dagskrá nú.

En ég vil benda á aðra leið í þessu efni, sem gæti náð sama tilgangi án þess að tefja málið, en hún er sú, að hv. þm. Ísaf. taki brtt. sínar aftur nú, og komi svo með þær í endurbættri útgáfu við 3. umr. (VJ: Þetta er 3. umr. málsins). Nú, jæja. En ég get í öllu falli ekki verið því meðmæltur, að málið verði tekið af dagskrá. Í brtt. er um að ræða gerbreytingar á einstökum atriðum frv., sem ég held, að ekki verði samþ. hér í d., og þó þær yrðu samþ. hér, þá eru mjög miklar líkur til, að þær yrðu málinu að falli í Ed.