02.05.1933
Neðri deild: 63. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1916 í B-deild Alþingistíðinda. (2784)

150. mál, almennur ellistyrkur

Vilmundur Jónsson:

Ég hefi ekki heyrt því haldið fram af neinum þdm. nema hv. þm. N.-Ísf., að venjuleg ellistyrktarúthlutun væri yfirleitt hærri en það, sem ég lét skína í hér við umr. Ég hefi spurzt fyrir um þetta hjá allmörgum þdm., og þeir hafa sagt mér, að þar, sem þeir þekktu til, væru ellistyrksupphæðirnar venjulega 20, 30 eða 40 kr. til hvers styrkþega. Meðaltal úthlutaðs ellistyrks hér í Rvík hefir verið um 30 kr. á hvern þiggjanda, að því er mér er tjáð. Það mun e. t. v. vera eitthvað hærra í sveitunum. Í Skagafirði er mér sagt, að þetta meðaltal sé um 50 kr. Á Ísafirði hefir úthlutaður ellistyrkur verið frá 20—40 kr., og í einstökum tilfellum 60 kr. (JAJ: Það fer stundum hærra. Ég hefi tekið á móti 100 kr. ellistyrk fyrir gamalmenni). Það hlýtur að hafa verið hrein undantekning. Annars verð ég að segja, að það virðist ekki vera mikill vandi að láta fólkið lifa í þessu landi, ef nokkuð er til í því, sem hv. þm. N.-Ísf. sagði sögu um, að gamall maður, sem hlotið hafði ellistyrk, gat eigi aðeins framfleytt sjálfum sér, heldur stutt þá fjölskyldu, sem hann bjó hjá af ellistyrksupphæð sinni — þótt aldrei nema hún kunni að hafa numið 100 kr.

Ég hefi borið fram þá ósk til hæstv. forseta, að málið yrði tekið af dagskrá, til þess að mér gæfist tækifæri til lagfæringar á einstökum atriðum í brtt. okkar til samkomulags við hv. n. En fyrst ég fæ því ekki framgengt, þá skal ég taka það fram, að ég hefi komizt að því, að frv. eins og það nú er mun ekki hljóta góðar undirtektir í Ed. í því formi, að auknum gjöldum til ellistyrktarsjóðs verði jafnað niður sem nefsköttum. Þess vegna vil ég benda hv. n. á að athuga, hvort frv. kynni ekki að fá betri byr þar, ef því væri breytt í líka átt og brtt. okkar benda til. Mér hefir skilizt, að svo mundi verða. Væri því heppilegast að fá tíma til þess að hlera eftir því og taka málið af dagskrá. (JJós: Frv. er nú að kalla má í þeirri mynd, sem Ed. afgr. það á sínum tíma).