11.04.1933
Neðri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

1. mál, fjárlög 1934

Héðinn Valdimarsson:

Við jafnaðarmenn berum fram brtt. á þskj. 401 um að veita 40 þús. kr. til radiovita á Reykjanesi. Það er viðurkennd skoðun í öllum siðuðum löndum, að vitagjöldin eigi að fara til þess að bæta vitana, og til einskis annars. Og þegar hér var upphaflega sett vitagjald, þá var gengið út frá þessu sem sjálfsögðu. En reyndin hefir orðið sú, að með þetta fé hefir verið farið alveg eins og það væri skattur til hagnaðar fyrir ríkissjóð. Bretar eru óánægðir yfir þessu, og hafa farið fram bréfaviðskipti milli stjórnanna í Bretlandi og Íslandi þessu viðvíkjandi.

Á landsreikningnum 1931 eru tekjur af vitagjöldum 480 þús. kr., en gjöldin 380 þús. kr. Þar frá dregst til bryggju- og lendingarstaða 35 þús., svo að gróðinn á vitagjöldum árið 1931 hefir orðið 135 þús. krónur. Svo virðist, sem stj. vilji halda uppteknum hætti um þetta, því að í stjfrv. til fjárl. fyrir árið 1934 er gert ráð fyrir, að vitagjald nemi 425 þús. kr., en gjöldin aftur 358 þús.; þar frá dregst með sama hætti og áður til hafnargerðar á Akranesi og til bryggjugerða og lendingabóta 45 þús. kr. Er hér því ætlazt til, að ríkissjóður græði 110 þús. kr. á vitagjöldunum.

Nú er það sanngjörn till. okkar, að af þessum ólögmæta gróða séu veittar 40 þús. kr. til radiovita á Reykjanesi. Við höfum fengið radióvita á Dyrhólaey, en það er ekki nóg, því að það þarf annan vita til þess að miða í, og til Reykjavíkur er yfir land að miða, svo að lítið gagn verður að Dyrhólaeyjarvitanum.

Nú er það svo, að við höfum á undanförnum árum orðið fyrir hverju skiptjóninu á fætur öðru á þessum slóðum, sem er einhver hættulegasti staðurinn við strendur landsins. Síðast í gær fórst þar togari, og 13 menn drukknuðu. Þessi 40 þús. kr. áætlun um kostnaðinn er gerð af Krabbe, og ég geri ráð fyrir, að hún láti nærri sanni.

Það er óþarft að eyða mörgum orðum til að skýra fjárhagshliðar þessa máls. Það er auðséð, að með því að eyða 40 þús. kr. til þessa sparast mikið fé, sem annars færi forgörðum vegna skipstranda á þessum slóðum. Auk þess eru mannslífin, sem við þetta kynnu að bjargast. Ég vænti þess og treysti því, sérstaklega með tilliti til þess, hvernig nú stendur á, að þessi brtt. nái fram að ganga á þingi.