23.02.1933
Neðri deild: 8. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (2980)

28. mál, dragnótaveiði í landhelgi

2980Björn Kristjánsson:

Eftir að lögin frá 1928 um bann gegn dragnótaveiði í landhelgi gengu í gildi, komu þegar fram háværar raddir úr Norður- og Suður-Þingeyjasýslum um að fá alfriðað svæðið frá Eyjafirði norður að Langanesi. Ég talaði oft um þetta á sumarþinginu 1931 og fékk að lokum loforð fyrir því hjá þáv. atvmrh. Þó komst friðun þessi ekki á fyrr en í febr. í fyrra. Ástæðan fyrir friðunarbeiðni þessari var sú, að sjómenn þar nyrðra töldu sig hafa margfalda reynslu fyrir því, að dragnótaveiðarnar stórspilltu öðrum fiskiveiðum á þessum svæðum. Mér var því mikil ánægja í því að geta flutt kjósendum mínum þær fréttir, þegar ég kom heim af þingi í fyrra, að nú loks hefði stj. orðið við þessari kröfu þeirra, og mættu þeir því vera öruggir um það, að dragnótaveiði yrði ekki leyfð á þessum slóðum fyrst um sinn. En hvað skeður? Það liðu ekki nema fáir dagar þangað til það fréttist, að komin væru allmörg veiðiskip með dragnætur inn á hið friðaða svæði. Nokkuð af skipum þessum kom þegar að kvöldi hins 15. júlí. Hreppstjórinn á Þórshöfn brá þegar við og tók eitt þessara skipa, sem var danskt, og ætlaði að fá það sektað fyrir landhelgisbrot, en þegar skipstjórinn var leiddur fyrir rétt hjá sýslumanninum á Húsavík, þá hélt hann því fram, að sér væri heimilt að veiða á þessum slóðum samkv. nýjum bráðabirgðalögum, sem sett höfðu verið. Þessi danski skipstjóri vissi þarna betur en hinir innlendu löggæzlumenn, því þegar sýslumaðurinn símaði til stj. fyrirspurn um þetta, þá fékk hann staðfestingu á umsögn hins útlenda skipstjóra og varð að sleppa honum og biðja afsökunar, en ríkissjóður varð að kosta ferð hreppstjórans austur til Þórshafnar. Hreppstjóri og sýslumaður urðu þannig aðeins til athlægis hjá hinum dönsku sjómönnum. Af þessu er það augljóst, að lagasetning þessi hefir verið tilkynnt í Danmörku svo löngu fyrirfram, að hin dönsku skip höfðu tíma til að útbúa sig til ferðarinnar og komast til Íslands nákvæmlega á þeirri stundu, sem lögin gengu í gildi, en að birting laganna hér á landi hafði hinsvegar ekki verið talin nauðsynleg fyrr en nokkru eftir að þau gengu í gildi. Afleiðingin verður svo sú, að íslenzkir löggæzlumenn standa eins og glópar til athlægis fyrir útlanda fiskimenn. Verð ég því alvarlega að átelja þessa aðferð hæstv. dómsmrh. Eins og nærri má geta, vakti þessi tilslökun mjög mikla óánægju þar norður frá. Var því send fyrirspurn til stjórnarráðsins um það, hvort alfriðunin frá í fyrra væri ekki í gildi, en stjórnarráðið leit svo á, að hún væri úr gildi numin með bráðabirgðalögunum. Ég hafði ekki séð þessi bráðabirgðalög fyrr en ég kom hingað suður í vetur, og ég fæ ekki betur séð en að alfriðunin sé í fullu gildi þrátt fyrir þau. Þar stendur hvergi, að hún sé afturkölluð. Í 8. gr. laganna frá 1928 segir svo m. a.: „Nú berst atvmrn. krafa um frekari takmörkun eða bann gegn notkun dragnóta en í 1. gr. segir, og skal þá heimilt að setja ákvæði um það, en leita skal ráðuneytið þó, áður en ákvörðun er tekin í málinu, álits hlutaðeigandi hreppsnefnda og stjórnar Fiskifélags Íslands. Ákvæði, sem ráðuneytið setur í þessum efnum, hafa lagagildi“ o. s. frv.

Grein þessi er alls ekki afturkölluð í bráðabirgðalögunum, heldur er bætt við nýrri málsgr., þar sem ráðuneytinu er heimilað að veita 2 mán. veiðileyfi umfram það, sem ákveðið er í lögunum.

Sé þessi skilningur minn réttur, að hin umrædda friðun hafi alls ekki verið afturkölluð með bráðabirgðalögunum, þá hafa allir, sem veiði stunduðu með dragnótum á hinu friðaða svæði, drýgt lagabrot.

Ég skal ekki fara að ræða mikið efni þessara laga; þau hafa mikið verið rædd og fengið misjafna dóma. Fiskifræðingar hafa haldið því fram, að þessi veiðiaðferð væri skaðlaus bæði fyrir kolann og aðrar fiskiveiðar. Ég fullyrði ekkert um það, hvort friðunin er í sjálfu sér nauðsynleg fyrir kolann, en hitt fullyrði ég, sem er tvímælalaus reynsla sjómanna, að dragnótaveiðarnar séu skaðlegar fyrir aðrar fiskiveiðar. Þessu til staðfestingar vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp ummæli fiskifulltrúans á Austurlandi, sem prentuð eru í nýútkomnum Ægi. Þar segir svo:

„Alstaðar heyrist sama sagan, þar sem dragnótaveiði er stunduð á grunnmiðum, að hún spilli mjög fyrir annari veiði á sömu stöðum. Á Bakkafirði var mér sagt, að mikið af fiskungviði hefði rekið þar við flóann, eftir að dragnótaveiðiskip höfðu veitt í flóanum. Mest hafði þetta verið ýsuseiði, sem rak, en ekki gat ég fengið ábyggilegar upplýsingar um það, hve stór seiðin voru“.

Þessi ummæli fiskifulltrúans koma alveg heim við það, sem fiskimenn á Þórshöfn, Raufarhöfn og Húsavík hafa sagt mér. Mun því verða í þessu sem öðru, að reynslan verði ólygnust.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, hefir verið borið fram sem bjargráð á krepputímum. Þó er það svo, að allmjög hefir greint á um það, hversu mikið bjargráð sé í því fólgið fyrir þá, sem dragnótaveiðarnar stunda. Reynslan hefir styrkt okkur, sem höfum verið vantrúaðir á ágæti þess, og vil ég í því sambandi benda á ummæli Kristjáns Bergssonar, forseta Fiskifélagsins, í hinu nýútkomna Ægishefti. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Margir bátar stunduðu dragnótaveiðar úr veiðistöðvum Sunnlendingafjórðungs, einkum yfir sumarið og haustið, eftir að lögunum um dragnótaveiðar var breytt; samt var skarkolaveiði yfirleitt treg og því lítið upp úr þeirri veiði að hafa, enda verðið mjög lágt“. Raunar bætir hann við í síðari hluta málsgreinarinnar þessum orðum, sem virðast vera í beinni mótsögn við fyrri hlutann: „Þó var þetta mikil hjálp í atvinnuleysinu, því hjá öllum þorra sjómanna er enga atvinnu hægt að fá þann tíma árs“.

Hér er sama sagan sem alstaðar kveður við. Veiðin lítil og verðið lágt. Og þessi umsögn forseta Fiskifél. er sérstaklega eftirtektarverð, vegna þess að hann hefir á undanförnum árum talið þessa veiði mjög arðvænlega og jafnframt skaðlausa öðrum fiskiveiðum og barizt fyrir afnámi friðunarinnar. Fyrir norðan, þar sem ég þekki bezt, stunda engir íslenzkir bátar þessa veiði, heldur aðeins Færeyingar og Danir. En annarsstaðar, þar sem þessi veiði var stunduð, hefir reynslan orðið sú sama. Eftir því, sem hv. þm. Borgf. sagði í fyrra undir umr. um þetta mál, þá hafa veiðar þessar aðeins verið stundaðar til hagsbóta á tveimur stöðum hér við Faxaflóa, Garði og Keflavík. Væri nú hér um mikið hagsmunamál að ræða fyrir almenning, þá gæti ég skilið það mikla kapp, sem lagt hefir verið á það af ýmsum hv. þm. á undanförnum þingum, að fá lögin um bann gegn dragnótaveiði í landhelgi afnumin. En þegar ekki er um annað að ræða en að veita Dönum og Færeyingum sérréttindi til þess að hrifsa bjargræði frá bæjardyrum bláfátækra fiskimanna, þá er mér þetta kapp hinna hv. þm. með öllu óskiljanlegt.

Ég vænti þess nú fastlega, að reynsla sú, sem fengizt hefir hin síðustu missiri um veiði þessa, hafi sannfært alla hv. þm. um það, að ekki sé rétt að fylgja þessu frv., og óska þess, að það verði fellt þegar við 1. umr., eða þá að öðrum kosti, að það fái þá afgreiðslu, að heimildin um alfriðun vissra svæða fyrir dragnótaveiði standi óbreytt, enda þótt undanþága verði veitt um lengri veiðitíma þar sem þess kynni að verða óskað af hlutaðeigandi héraðsstjórnum. Annars fæ ég ekki skilið, að þm. leggi það kapp á að eyða kolanum, að þeir þeirra hluta vegna vilji eyðileggja aðrar fiskiveiðar fyrir fátækum sjómönnum, til vandræða fyrir allan þorra manna og engum til gagns, nema Dönum og Færeyingum. Og ég vil a. m. k. mótmæla harðlega slíkri meðferð á kjósendum mínum.