23.02.1933
Neðri deild: 8. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (2981)

28. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Eins og hv. þm. N.-Þ. hefir bent á og öllum hv. þdm. mun kunnugt, hafa legið fyrir undanförnum þingum frv. um tilslökun á þessari löggjöf. Hafa till. þessar gengið mjög mismunandi langt. Á síðasta þingi var hin síðasta tilraun í þessa átt brotin á bak aftur, þar sem það felldi allar till. um tilslökun frá þessum umræddu lögum, og frv. sömuleiðis. Ég verð því að átelja stj. fyrir að hafa gefið út bráðabirgðalög þau, er hér liggja fyrir, þar sem þau í fyrsta lagi hafa enga stoð í löggjöfinni, og í öðru lagi hefir stjórnin með setningu þeirra gengið meir í berhögg við vilja og rétt Alþingis en nokkur stj. hefir heimild til þess að gera. Þó að stj. telji lög þessi byggð á yfirlýstum vilja meiri hl. þm. í báðum deildum, þá tel ég, að hún hefði frekar átt að taka tillit til þeirra úrslita, sem mál þetta fékk á löglegan hátt á Alþingi hér í fyrra, því að það leiðir af sjálfu sér, að stj. ber að taka mest tillit til þess, sem gerist í málunum á þinglegan hátt, og í þessu tilfelli er það afgreiðsla málsins. Mér finnst því illa farið, að undanþága þessi skuli hafa verið veitt, því með henni er gengið í berhögg við lögformlegan vilja Alþingis og unnið skemmdarverk á löggjöfinni. Ég er því sömu skoðunar og hv. þm. N.-Þ., að svo beri að taka á móti þessari tilraun, eins og hverri annari tilraun, sem gengur í þá átt að skerða fiskveiðalöggjöf okkar, að greiða atkv. á móti henni nú þegar. Mín afstaða til frv. þessa er því sú, að ég mun alltaf greiða atkv. á móti því.