23.02.1933
Neðri deild: 8. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (2984)

28. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Björn Kristjánsson:

Það er aðeins örstutt aths. Hæstv. ráðherra segir, að bráðabirgðalögin hafi ekki verið sett vegna áskorana frá Dönum. Slíkt hefir mér aldrei dottið í hug. Ég veit, að stj. hefir sett þau í góðum tilgangi, sem að vísu byggist á ókunnugleik og misskilningi. Þess vegna deili ég heldur ekki svo mjög á hæstv. stj. fyrir það, að hún gaf bráðabirgðalögin út, heldur aðallega fyrir það, á hvern hátt hún hefir látið framkvæma þau og hvernig þau voru birt.

Ég er í engum efa um, að það hljóti að vera rétt, sem ég hélt fram í fyrri ræðu minni, að dönsku skipin hafi fyrirfram fengið tilkynningu um, að bráðabirgðalögin voru sett, því annars er óhugsandi, að þau hefðu komið svona snemma. Og sú tilgáta hæstv. ráðh., að skipin hafi siglt hingað svona snemma án þess að vita um bráðabirgðalögin, er alveg óhugsanlegt, þar sem þau hefðu þá orðið að bíða hér aðgerðalaus í 11/2 mánuð, eða frá 15. júlí til 1. sept. Þetta sýndi sig líka í því, að þegar hreppstjórinn ætlaði að taka skipstjórann á dragnótaskipinu, þá var hann strax á því hreina með það, að veiðarnar væru ekki lögbrot, heldur væru þær löglegar samkv. nýútgefnum bráðabirgðalögum. Hæstv. dómsmrh. þótti ólíklegt, að ég hefði farið svo af síðasta þingi, að hafa ekki grun um, hvað til stóð í þessu efni. En ég get sagt honum, að ég var algerlega ugglaus. Ég taldi engan efa á því, að við Þingeyingar fengjum að njóta áfram okkar fiskimiða, óáreittir af dönskum og íslenzkum dragnótaveiðiskipum. Að vísu varð ég var við, að eitthvert skjal gekk á milli sumra þm. hér í d. daginn fyrir þinglok í fyrra, og grunaði, að það mundi vera áskorun um að rýmka dragnótaveiðina, en ég fékk aldrei að sjá það, og því síður vissi ég, hvað margir þm. skrifuðu undir það.

Ég sá eftir, að hæstv. dómsmrh. minntist ekkert á skilning minn á bráðabirgðalögunum. Mér skilst, að þau afturkalli ekki bannið innan þeirra takmarka, þar sem áður var alfriðað. Það getur verið, að mér skjátlist í þessu, þar sem ég er ekki lögfróður maður, og þætti mér því gaman að heyra álit hæstv. dómsmrh. á því.