14.03.1933
Neðri deild: 24. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (2991)

28. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég hefi í rauninni undrað mig töluvert á því, að hv. frsm. þessa máls eða meiri hl. sjútvn., því hún er sýnilega klofnuð í þessu máli, skuli byggja vonir sínar á framgangi þessa frv. á því, sem gerzt hefir á þinginu í þessu máli á undanförnum árum, því eins og kunnugt er, hefir þetta mál legið fyrir 3-4 þingum og alltaf verið fellt. Það, að slakað var til á þessum 1., var þess vegna gert í algerðu trássi við lögformlega afgreiðslu þessa máls. Það er náttúrlega rétt, að það tókst að skrapa saman með ógurlegum eftirgangsmunum, með því að sitja yfir mönnum stundunum saman, á skjal meiri hl. þm. til þess að skora á stj. að gera þá breyt., sem gerð. hefir nú verið. (IngB: Hvar liggur það skjal?). Ég veit það ekki, en þær ástæður, sem bornar voru fram við 1. umr. fyrir þessu frv., hyggðust á því, að slíkt skjal hefði borizt í hendur stj., og ég hefi enga ástæðu til þess að rengja það út af fyrir sig, að slíkt skjal hafi komið fram, og að því leyti sé þetta rétt, en hitt hefði verið réttara, að birta þetta skjal og nöfn þessara manna í grg. frv., þar sem viðhöfð var eins óvenjuleg aðferð og raun var á í þessu máli, að setja bráðabirgðal. þvert ofan í afgreiðslu þingsins. Ég held þess vegna, að þessi von um aðra afgreiðslu í þessu máli en að undanförnu hljóti að vera byggð í mjög lausu lofti. Enda virðist mér það, bæði þegar maður lítur á ræðu hv. frsm. og afgreiðslu n. á þessu máli, að báðir þessir aðiljar séu farnir að draga mjög mikið í land frá því, sem áður hefir verið. Því eins og kunnugt er, hefir n. staðið óskipt að þessu máli oftast nær, ef ekki alltaf. Auk þess viðurkenndi hv. frsm. ýmislegt, sem fram hefir komið í þessu máli í seinni tíð og sýnir ljóslega skaðsemina, sem af dragnótaveiðunum leiðir inni á flóum og fjörðum.

Hann tók undir þetta og viðurkenndi, að hann yrði að beygja sig fyrir þeirri staðreynd, að þetta væri hættulegt inni á flóum og fjörðum, en sagði, að öðru máli gegndi í Vestmannaeyjum, og þess vegna virðist mér, að hann sé kominn á þá skoðun, að það væri réttast að hafa sérákvæði um þetta, sem þá væru miðuð við sérstaka staðhætti. Þetta er ákaflega mikið undanhald frá því, sem þessi og aðrir stuðningsmenn þessa máls hafa haldið fram að undanförnu, þar sem þeir hafa talið þetta með öllu skaðlaust, og mótþrói gegn þeim byggist ekki á neinu öðru en því, að standa snönnum í vegi fyrir að auka afla sinn. Þar sem það er svo, að þessi staðreynd er farin að mótast inn í þá, sem fastast hafa haldið fram þessu máli, þá má það vera ljóst, að það er því síður ástæða til fyrir þingið nú en að undanförnu að gera slíka breyt., sem nú er búið að gera og farið er fram á, að þingið leggi blessun sína yfir. Því var haldið fram við 1. umr. þessa máls, að það hefði orðið nokkurt gagn af þessum bráðabirgðalögum, sérstaklega við sunnanverðan Faxaflóa.

Það hefir borizt bréf til þingsins frá oddvita í einum hreppi suður á Garðskaga - í Gerðahreppi -, þar sem því er lýst, hverjar afleiðingar þessi lagasetning hefir haft fyrir þá í Garðinum, og af því að sá maður, sem skrifar um þetta, er gamall sjómaður, sem hefir stundað sjómennsku og verið við útgerð um 40 ára skeið og er auk þess glöggur maður á slíka hluti, þykir rétt, með leyfi hæstv. forseta, að rekja þráðinn í þessu bréfi.

Hann fer fram á það í þessu bréfi sínu, að þingið vildi banna allar dragnótaveiðar í landhelgi við sunnanverðan Faxaflóa. Hann gengur ekki lengra en að fara fram á bann að því leyti er snertir hagsmuni þeirra, sem hann talar fyrir. En svo fer hann að gera grein fyrir því, á hverju þetta byggist, og segir, að ástæður fyrir beiðni þessari séu þær, sem hér segir: „Síðan við með reglugerð frá 11. júlí 1923 fengum landhelgi alfriðaða fyrir dragnót hér í sunnanverðum Faxaflóa og landhelgisgæzlan fór batnandi, hafa aflabrögð stöðugt farið vaxandi hér að haustinu, sem ég nú vil sanna með dæmi af einu skipi, sem ég hefi fengið skýrslu frá um afla þess frá 1928. Það haust, frá 15. ág. til 15. des., aflaði það fyrir kr. 4420,00, haustið 1929 fyrir kr. 5250,00, haustið 1930 fyrir kr. 6225,00 og svo haustið 1931 fyrir kr. 2650,00, frá 15. ág. til 15. sept., og ekkert frá þeim tíma, því þá var farið að skafa hér alla landhelgina með dragnót. Af framansögðu geta nú allir gert sér í hugarlund, hversu gífurlegt tjón þetta var fyrir hreppinn, þar sem hér voru um 15 skip búin að búa sig út til veiða með miklum kostnaði, en gátu svo ekkert aflað vegna dragnótanna. Tjónið er áreiðanlega ekki undir 50 þús. kr. þetta eina haust. Má því sjá, hvernig framtíð hreppsins lítur út, þar sem þetta haustfiskirí var það eina, sem hélt lífinu hér í fólki, því annan tíma ársins aflaðist hér sama og ekkert. Við vorum farnir að vona, að framtíð hreppsins væri borgið með sívaxandi afla að haustinu vegna bættrar landhelgisgæzlu“.

Þetta sýnir, hvaða áhrif dragnótaveiðarnar hafa haft á aðrar fiskiveiðar í Garðsjónum. Það er kunnugt, hvernig ástatt var hér við Faxaflóann meðan menn höfðu ekki önnur tæki en opna báta til þess að sækja á sjó, að þá var það Garðsjórinn, sem var bezta og tryggasta fiskimiðið við flóann, því þar brást aldrei afli allan ársins hring, og þegar ekki fiskaðist vel á innmiðunum, þá fóru menn í þessa svo nefndu Garðtúra. Það eru þessar sömu stöðvar, sem nú er farið svo fyrir af völdum dragnótarinnar. Hann heldur svo áfram í bréfi sínu: „Við lestur umræðna á þingi um dragnótaveiðar sé ég, að þm. eru yfirleitt lítt kunnugir þessari veiðiaðferð, og vil ég því lýsa henni hér dálítið. Þegar verið er að fiska með dragnót á blautum leirbotni með smá botngróðri hér og hvar, safnast mikið af þessu í nótina með kolanum, klessast því þarablöðin inn í botni vörpunnar, svo að hún verður þétt og heldur öllu, sem í hana kemur, leðju og smáfiskseiðum. Þegar þessu er svo hleypt úr á þilfar bátsins, er stærsti kolinn tíndur úr, en öllum smáseiðum, sem þá eru dauð, og rusli fleygt fyrir borð. Geta allir séð, hvaða áhrif þetta hefir á ungviði nytjafiskanna, sem alast upp í landhelginni“.

Ég ætla að staldra hér við lestur bréfsins og athuga í sambandi við þessar upplýsingar, hvaða þýðingu það hefir í sjálfu sér, sem verið er að tala um, að gefa út reglugerð um einhverja sérstaka möskvastærð á dragnótinni. Hv. þm. N.Þ., sem sjálfur hefir verið við slíkar veiðar og kynnzt þeim af eigin reynd, upplýsti í fyrra - og það kemur alveg heim við umsögn oddvitans -, að það hefir ekki nokkra minnstu praktiska þýðingu, þó ákveðið sé eitthvert lágmark um það, hvað möskvinn megi vera stór. Það er bara hégómaatriði. Það hefir enga þýðingu út af fyrir sig, þó stj. gefi út slíka reglugerð, sem mér virðist, að nefndin sé að ýta undir hana að gera með nál.

Þá segir svo ennfremur í bréfi oddvitans: „Þó er, að mínu áliti, þetta ekki það versta við dragnótaveiðarnar. Hitt er verra og stórtækara og hefir lík áhrif fyrir fiskana í sjónum sem t. d. svartidauði hafði hér áður fyrir mennina, og það er, að þegar verið er að dragnótaveiðum á blautum botni, sem víða er innfjarða, þá hræra næturnar svo upp botninn, að sjórinn verður eintómt kolmórautt grugg, líkt og for, sem borin er á tún, sem ungviðið lifir ekki í til lengdar; er því viss dauði þess, sem ekki nægilega snemma getur forðað sér nógu langt í burtu“.

Til viðbótar við það, að dragnæturnar drepa svona ungviðið, þá eru áhrifin af röskuninni í botninum mjög skaðleg vegna fullorðna fiskjarins. Oddvitinn segir t. d., að eins og þar sé ástatt, sé þetta ekki aðeins hættulegt þeim svæðum, þar sem dregið er um. T. d. þar, sem er harður straumur, verki það þannig, að gruggið, sem dragnæturnar rusla upp í botninum, berist langt vestur með landi, jafnvel sé sjórinn gruggugur langt suður með öllu Miðnesi, þegar dragnætur eru notaðar við Vogastapa: Og dæmi segir hann að séu til þess, að þótt nógur fiskur sé í Garðsjó áður en gruggið komi, þá hverfi hann jafnskjótt og það komi. Skal ég í þessu sambandi benda á fleiri dæmi því til stuðnings, að hér sé rétt frá sagt.

Ég heyrði oft talað um það á þeim árum, þegar hér voru stundaðar mikið handfæraveiðar, að þegar fiskur var í göngum austur með söndum, þá fiskaðist vel á þeim skipum, sem voru á grynnstum sjó, því að þar var fiskurinn þéttastur. Þegar svo bar við, er fiskur var í göngu, að gerði austanrok, sem orsakaði mikið sandfok frá Rangárvöllum, þá hvarf fiskurinn af grynningunum og á haf út.

Ég get bent á það, að þegar botnvörpu- og dragnótaveiðar voru hér óþekktar, var það svo þarna suður með Vogastapa og í Leirusjó, að þegar gerði moldrok af landi, hvarf fiskurinn af grunnmiðunum. Og það er vitanlega sama, hvort sjórinn gruggast af moldroki af landi eða fyrir það, að leðjunni í botninum er rótað upp með dragnótum. Það hefir sömu afleiðingar. Svo að þær fullyrðingar um skaðsamleg áhrif dragnótanna á þennan hátt eiga við fullkomnar staðreyndir að styðjast.

Svo heldur oddviti Gerðahrepps þannig áfram:

„Ég, sem nú í 46 ár hefi stundað sjó, átt heima allan þann tíma við sjó og gert út allar tegundir veiðiskipa, frá mótorbát til togara, og því fylgzt með öllum breytingum á sviði útgerðar, get ekki skilið, hvernig á því getur staðið, að löggjafana skyldi henda það, að leyfa nú botnvörpuveiðar í allri landhelgi landsins. Það hlýtur að vera af því, að þeir eru flestir ungir og þekkja því ekki áhrifin, sem togarar gerðu á grunnmiðin, þá þeir komu hér fyrst til lands og skófu alla landhelgi hindrunarlaust, þar sem þá var lítil eða engin landvörn.“

Það, sem hann segir hér um botnvörpuveiðar, á í raun og veru við dragnótaveiðar. Þetta skiptir þó ekki miklu máli, því að dragnætur skemma ekki minna en botnvörpur í þessu sambandi. Auk þess finnst mér skína í það í ummælum skipstjórans á varðbátnum fyrir Vestfjörðum, að það sé ekki útilokað, að dragnótabátar hafi líka hlera á veiðitækjum sínum. Það er það, sem Danir gera og Færeyingar, því að þeir hafa verið sektaðir fyrir það á Austurlandi að nota fleka við dragnótaveiðar.

Ég er kominn langt með bréf þetta. Skal ég þó lesa hér nokkuð til viðbótar úr niðurlagi bréfsins. Þar stendur:

„Það er sorglegt að vita til þess, að þegar búið er að kosta mörgum milljónum til landhelgisvarna og við nú eigum góð skip til að verja og nú er farinn að sjást mikill árangur af þeim vörnum, þá skuli sjálft löggjafarþingið leyfa botnvörpuveiðar í landhelgi allri. Það er grunur minn, að ef haldið verður áfram að leyfa dragnótaveiðar í landhelgi, þá verði það til þess að leiða hungur og hallæri yfir fleiri byggðarlög en Gerðahrepp, en það er fyrirsjáanlegt hér.

Ég get ekki látið mér detta í hug annað en að þingið verði við þessari beiðni minni, þar sem nú er komin full reynsla fyrir því, að veiðar þessar gefa engan arð þeim, sem þær hafa stundað, heldur þvert á móti stórtap flestum“.

Viðvíkjandi því, hve arðvænlegt það sé að stunda dragnótaveiði, bendir hann á það, að þegar svona var komið fyrir þeim við Garðsjó, að þeir gátu ekki aflað neitt með sínum venjulegu veiðarfærum, þegar búið var að eyðileggja miðin, þá tóku 2 bátar sig til og keyptu dragnótaveiðarfæri síðastl. sumar og stunduðu veiðar með þeim þar og annarsstaðar frá 15. júlí og fram eftir haustinu. Niðurstaðan varð sú, að þessar veiðar gáfu af sér aðeins klippt og skorið fyrir olíunni, sem þurfti til að knýja bátinn við veiðarnar. Enginn afgangur til að borga annan kostnað og ekkert fyrir fyrirhöfnina. Þá er líklegt, að minni árangur hverfi í ginnungagap það, sem veiðarfæri og annað kostar, sem til slíkra veiða útheimtist.

Ég hefi nú bent á nokkur dæmi, sem sýna það, að hv. frsm. og n. séu farin að sveigja til hliðar í máli þessu frá því, sem áður hefir verið haldið fram. Nefndarmenn hafa, eins og kunnugt er, byggt á áliti fiskifræðinga í þessu efni. Það er sjálfsagt rétt að taka tillit til vísinda og rannsókna. En þar sem álit vísindamanna rekur sig svo grimmilega á reynslu manna, eftir þeim fengnu staðreyndum, sem hér ræðir um, um skaðsemdir dragnótaveiðanna, get ég ekki beygt mig svo fyrir vísindamönnum eða fræðimönnum, að ég loki augunum fyrir staðreyndunum. En fyrir þeim hafa þeir viljað loka augunum, sem viljað hafa rýmkun dragnótaveiðanna, sem hér ræðir um. En nú er það m. a. skýrt hjá hv. frsm., að hann vildi nú ekki eins undirstrika ályktun fræðimanna og ganga fram hjá staðreyndunum.

Mér finnst mál þetta horfa svo við nú, að ekki ætti að slaka svo til á þessum lögum sem nú er gert með bráðabirgðal., og þar sem alltaf bætist við ný og ný reynsla fyrir því, að hér sé stefnt til mesta ófarnaðar með því að gera nokkrar tilslakanir frá þessum 1., þá ætti það ekki að enda þannig, að hæstv. Alþ., fulltrúasamkoma þjóðarinnar, fari nú að samþ. slíkar tilslakanir. Þar sem hæstv. Alþ. hefir á undanförnum árum fellt þessar tilslakanatill., ætti það nú, eftir meiri fenginni reynslu um skaðsemdir dragnótaveiðanna, að fella þær með enn meiri atkvæðamun en áður.

Eitt atriði vildi ég enn minnast á í ræðu hv. frsm. Hann sagði, að þeir menn hefðu sérstaklega horn í síðu dragnótaveiðanna, sem ekki fengjust sjálfir við þann veiðiskap, heldur hefðu aðkomumenn hann með höndum í nánd við þá. Ég hefi bent á það, að það hafa engu síður komið mótmæli frá þeim stöðum, þar sem heimamenn hafa tekið þátt í þessum veiðiskap. En viðvíkjandi þeim, sem ekkert hafa við hann fengizt til þessa, og því, að þeir gætu snúið sér að þessari veiði, vil ég segja það, að það er ófýsilegt að gera það, þar sem reynslan hefir orðið sú, að uppskeran af henni hefir orðið sáralítil og í mörgum, mörgum tilfellum hefir veiði þessi verið langt fyrir neðan það að bera sig. Mönnum er nokkur vorkunn, þó þeir fari ekki að braska við að afla sér þessara tækja. Hitt er eðlilegt, að menn leiti þess, að fá lagavernd gegn því tjóni, sem dragnótaveiðar valda mörgum mönnum hér á landi, og setji sig á móti slíkum tilslökunum, sem hér er um að ræða.