14.03.1933
Neðri deild: 24. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í C-deild Alþingistíðinda. (2992)

28. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég ætla, að það hafi verið tekið fram við 1. umr. þessa máls, að ástæðan fyrir því, að bráðabirgðal. vöru sett, var áskorun frá meiri hl. þm. í báðum d. Ég verð að segja það, að mér fannst ekki vera hægt að fara á móti slíkri ósk, jafnvel þótt þetta væri ekki gert á þinglegan hátt. En ef einhvern þeirra hv. þm., sem undir þessa áskorun rituðu, iðrar þess, þá er tími til að sýna það nú í verki, og mun það látið fyllilega reiðilaust af mér. En viðvíkjandi því, hvort nokkurt gagn hafi orðið að þessum lögum, vil ég benda á, að um það fer tvennum sögum. Ég held, að þess hafi verið getið við 1. umr., að fiskiritið Ægir segir, að þetta hafi orðið mörgum mikil hjálp í atvinnuleysinu. Ef það er rétt, þá er hér ekki unnið fyrir gýg. Það er alltaf nokkurs virði að veita hjálp í atvinnuleysi. Annars veit ég ekki fyrir víst, hvort þetta er rétt, en um það er deilt.

Ég hefi tekið eftir því, að n. telur, að reglugerð sú, sem gert er ráð fyrir í 1. gr. bráðabirgðal., muni ekki hafa verið gefin út. En hún var gefin út 2. okt. f. á. og var birt í Stjtíð. Það stóð lengi á þessu, en stjórnarráðið beið eftir till. um möskvastærð o. fl. frá Fiskifélaginu.

Út af fyrirspurn hv. þm. N.-Þ. vii ég taka það fram, að ég vissi ekki, að mál þetta yrði tekið aftur á dagskrá í dag, og hefi því ekki athugað það atriði, sem hann spurði um. Skal ég taka þetta til athugunar fyrir 3. umr., og vona ég, að það sé nóg. Einnig skal ég athuga, hvort fært sé að bera fram brtt. samkv. ósk hans.

Ég sé það í hendi mér, að ef allar þessar reglugerðir, sem út hafa verið gefnar, falla niður, verður lítið gagn að þessum 1. Skömmu áður en þessi 1. voru gefin út komu margir formenn til mín til þess að biðja um þau. Þessir menn fá ekki uppfylling sinna óska, ef reglugerðin fær ekki að standa. En svona eru skoðanirnar skiptar, að frá héraði, sem er mjög nálægt heimkynni þessara formanna, koma eins harðdræg mótmæli eins og hv. þm. Borgf. las upp.

Ég sé ekki annað en að meiri hluti þings verði að ráða hér úrslitum. En hvernig sem sá úrskurður verður, verður augsýnilega mjög greinilegur ágreiningur um réttmæti hans. Ef hér suður með sjó á að halda uppi banni gegn dragnótaveiðum í landhelgi, án allra tilslakana, er það sýnt, að þar verður að hafa varðskip að staðaldri. Og það getur orðið ríkinu dýrt.