14.03.1933
Neðri deild: 24. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í C-deild Alþingistíðinda. (2993)

28. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Ég minnist þess, að haustið 1930 var mikið um það talað, hver forgangur væri orðinn í Miðnessjó og Garðsjó vegna dragnótaveiða. Þá var sótt svo fast á með veiðina, að nærri því horfði til vandræða. Og ég held, að þáv. dómsmrh. og þm. kjördæmisins hafi hvor í sínu lagi orðið að fara til þess að sætta hlutaðeigendur. Þetta sýnir, að sótt hefir verið fast á með það að fá leyfi til þessara veiða. Ég hygg, að það hafi með öðru ýtt undir þá, sem vildu slaka til frá ákvæðum 1. í þessu efni, að menn vildu svo ákafir draga sig eftir þessari björg. Og ekki var búizt við því, að nein vandræði mundu af því hljótast.

Hv. þm. Borgf. er fylginn andófsmaður frv. um, að nokkuð sé slakað til í þessu efni. Ég hefi áður flutt þetta mál á þeim grundvelli, að hin ýmsu héruð landsins hefðu sjálfsákvörðunarrétt í þessu efni. Hann sagði, að ég væri farinn að fella mig við það. En upphaflega áleit ég, að héruðin ættu að hafa þennan sjálfsákvörðunarrétt um það, hvort dragnótaveiðar skyldi leyfa í landhelgi þeirra. Það virðist svo, að sumstaðar þar, sem horfið hefir verið að þessum dragnótaveiðum, hafi ekkert gagn af hlotizt, en þeir, sem það hafa gert, telji sig hafa haft af þeim ógagn eitt. Aftur þekki ég marga, sem telja sig hafa mikið gagn haft af þeim, en ekki hafa þó sent þinginu neitt skriflegt um það. Nú hefir hv. þm. Borgf. fengið nýtt gagn í málinu, þar sem er bréfið frá oddvitanum í Gerðahreppi. Ég álít, að þessi ágæti oddviti vilji sanna of mikið í málinu til þess, að maður geti reitt sig á, að hans álit sé óbrigðult í þessu efni. Hvers vegna er það, ef það kemur fyrst í ljós nú, að gruggið í sjónum fyrir Vogastapa er dragnótunum að kenna? Þetta grugg, sem sagt er, að spilli svo mjög fyrir fiskveiðum í Garðsjó, á að vera eingöngu af þessari ástæðu. Í Faxaflóa er búið að fiska ógrynni með veiðarfærum, sem ekki spilla botninum síður en dragnæturnar, á tímabili, sem er hátt upp í mannsaldur. Hvers vegna er þetta grugg í Garðsjó aðeins nefnt nú í sambandi við dragnótaveiðarnar, en ekki áður í sambandi við togaraveiðarnar? Annars sýnir orðalag bréfsins það, að bréfritaranum hættir til að ýkja, því að hann gerir engan mun á dragnótaveiðum og botnvörpuveiðum. Nú er það kunnugt, að þeir menn, sem hafa gert það að lífsstarfi sínu að rannsaka sjávarbotninn og lífið í sjónum, fiskifræðingarnir, hafa í ritum sínum gert greipilega upp á milli þess, hve mikið botnvarpa og dragnót skemma. Telja þeir dragnótina skemma hverfandi lítið hjá því, sem botnvarpan gerir. Hitt kannast ég við, að fyrir suðurströnd landsins er það algengt, að þegar fiskur gengur á grunnið, svo sem 3 faðma dýpi, í göngum og hvassviðri gerir og sandfok af landi, þá flýr fiskurinn frá landi. En þetta á ekkert skylt við gruggið í Garðsjó, og það er eðlilegt, að fiskarnir uni því ekki. Annars er það ekkert nýtt hér við Faxaflóa, að andstaða sé mikil á móti nýjum veiðiaðferðum. Hún hefir verið mjög æst á vissum tímabilum. Það er vitanlegt, að það var mikil andstaða gegn þorskveiðinni í Faxaflóa á sínum tíma. Og þegar menn nú lesa allt það, sem sagt var þá um þetta, líta þeir það í allt öðru ljósi. Margt af því er jafnvel broslegt. Það hefir komið fyrir, að menn hafa haldið, að gufuskipaferðir mundu spilla fyrir fiskveiðunum. Svona öfgar í sambandi við veiðiaðferðir hafa aðallega átt heima hér við Faxaflóa. Mér finnst, að ályktun bréfritarans beri allmikinn svip af þessum öfgum, þar sem hann líkir dragnótaveiðunum að skaðsemd fyrir ungfiskinn í sjónum við svartadauða hér á landi fyrr á öldum. Finnst mér því ekki hægt að hugsa sér að leggja álit oddvitans í Gerðahreppi sem grundvöll undir afstöðu Alþingis í einu og öllu um þetta mál.

Ég verð að biðja hæstv. dómsmrh. afsökunar á því, að ég hefi ekki séð þessa reglugerð, sem hæstv. ráðh. upplýsir nú, að hafi verið birt í Stjtíð., og skal ég þá um leið geta þess, að enginn af okkur sjútvnm. vissi um þessa reglugerð. Út af því, sem hv. þm. Borgf. sagði í sambandi við þessa reglugerð, að ákvæðið um möskvastærðina væri þýðingarlaust með öllu - og virtist hv. þm. fyrst og fremst byggja þetta á áliti oddvitans í Gerðahreppi, sem hann virðist hafa allt vit sitt í þessu máli frá - vil ég segja það, að þetta er út í bláinn mælt. Þótt botninn kunni að vera svo í einstökum tilfellum eins og hv. þm. lýsti, að hann loki fyrir allar glufur, er botnlagið þó ekki eins alstaðar, heldur sumstaðar sendinn botn, sem ekki sezt í veiðarfærin, enda mætti það undarlegt heita, ef Danir, sem eru með fremstu þjóðum í þessum veiðiaðferðum, hefðu sett þetta ákvæði um möskvastærðina algerlega út í bláinn. Sannleikurinn er líka sá, að þetta ákvæði um möskvastærðina er alstaðar sett af sömu ástæðum, til þess að koma í veg fyrir, að ungviðið drepist. Las ég hér í fyrra upp álit norsks vísindamanns, sem raunar heldur því fram, að ungviðið sé í fullu lífi eftir að því hefir verið hent í sjóinn aftur.

Hv. þm. Borgf. þóttist viss um, að þetta mál yrði steindrepið hér á þinginu að þessu sinni, og vildi hann jafnvel halda því fram, að sjútvn. væri nú á undanhaldi í málinu. Þetta er ekki rétt. N. stendur óskipt að frv. í öllum aðalatriðum, en tveir nm. hafa að vísu eitthvað að athuga við einstök atriði frv. Þrátt fyrir einstakar raddir, eins og oddvitans í Gerðahreppi, um það, að dragnótaveiðarnar valdi fiskileysi, sem alls ekki er sannað, og eins þótt einstakir menn hafi orðið fyrir vonbrigðum og ekki haft eins mikið gagn af veiðunum eins og skyldi, stendur sú staðreynd óhrakin eftir sem áður, að dagnótaveiðarnar, reknar af viti með hæfilegum tilkostnaði, auðvitað með því fororði, að sæmilegt verð fáist fyrir fiskinn, verða einn af bjargræðisvegum þeirra sjómanna, sem vilja nota sér þessi veiðarfæri og kunna með þau að fara. Byggir n. aðstöðu sína til málsins einmitt fyrst og fremst á þessu, og vill enda ekki heldur stuðla að því, að veiðarfærin, sem til eru í landinu, grotni niður, eins og hv. þm. Borgf. var að tala um, því að vitanlega grotna þau niður, ef mönnum er meinað að nota þau. Hvað við blasir í þessu máli á hina höndina, þá hefi ég oftsinnis bent þeim hv. þm. Borgf. og hv. þm. N.-Þ. á það, að það er staðreynd, að 9/10 af kolaveiðunum hér við land lenda hjá Englendingum, en aðeins 1/10 fellur í skaut innlendra fiskiskipa, og áframhaldandi bann við að veiða kola í dragnætur stuðlar að því, að þessi ófarnaður haldist áfram. Þessarar staðreyndar mega andstæðingar frv. og allra tilslakanna á dragnótaveiðalöggjöfinni minnast, því að þrátt fyrir umkvartanir stýrimannsins á „Jóni Finnssyni“ og oddvitans í Gerðahreppi, verður kjarni þessa máls ávallt þessi hinn sami, hvort við eigum að halda áfram að ala kolann upp handa Englendingum eða ekki.