14.03.1933
Neðri deild: 24. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í C-deild Alþingistíðinda. (2996)

28. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Björn Kristjánsson:

Hv. þm. Borgf. hefir talað svo vel og skörulega fyrir þeim málstað, sem ég fylgi, að ég sé ekki ástæðu til að bæta við þetta nema nokkrum orðum, og vil þá fyrst þakka hv. frsm. fyrir það, að hann hefir vitkazt í málinu og sækir það nú ekki með sama kappi og á undanförnum þingum.

Hv. þm. Borgf. dró það rækilega fram, hve dragnótaveiðarnar hafa skaðvænleg áhrif á aðrar fiskveiðar. Við andstæðingar frv. leggjum sem sé aðaláherzluna á þetta, að skaðinn, sem af dragnótaveiðunum leiðir, sé miklu meiri en það gagn, sem þeim fylgir. Það má ekki líta eingöngu á málin frá sjónarmiði þeirra, sem hagsmuni hafa af dragnótaveiðunum, heldur verður líka að líta á þetta frá sjónarmiði þeirra annara, sem fá ekki að vera í friði fyrir þessum veiðum og bíða þeirra vegna stórskaða. Ennfremur benti hv. þm. Borgf. réttilega á það, að þessi rýmkun á löggjöfinni væri fyrst og fremst gerð fyrir Dani og Færeyinga, enda kom það og fram í ræðu hv. frsm., að stórir bátar væru of dýrir til þessara veiða, en minni bátar verða aðeins notaðir þar á landinu, sem gott er um samgöngur til að koma kolanum á erlendan markað, en svo hagar ekki til alstaðar á landinu, t. d. ekki á Norður- og Austurlandi, nema part úr sumrinu 1931, en hvorki áður né síðar.

Ef fara á að staðfesta þessi lög, tel ég ósæmilegt að gera það öðruvísi en svo, að héruðin hafi sjálfsákvörðunarrétt um það, hvort þau vilja leyfa dragnótaveiðarnar að einhverju leyti eða ekki, og með öllu óverjandi að troða slíkri rýmkun á dragnótaveiðunum upp á landshlutana, þótt þetta væri útlendingum til gagns.

Mér þótti leiðinlegt, að hæstv. dómsmrh. skyldi ekki hafa tök á að svara þeirri spurningu, sem ég lagði fyrir hann hér við 1. umr., en ég mun eftir atvikum láta mér nægja, að hæstv. ráðh. hefir gefið loforð um að flytja brtt. við frv., til þess að tryggja sjálfsákvörðunarrétt héraðanna, ef þessa skyldi reynast með þurfa. (PO: Við fellum frv. strax við þessa umr.). Ég get að sjálfsögðu tekið undir það með hv. þm. Borgf., að fella eigi frv. strax við þessa umr. En færi svo, að það takist ekki, verð ég þó að treysta því, að hæstv. dómsmrh. komi fram með brtt. í þessa átt, sem hann gaf undir fótinn með, - þ. e. a. s. ef hann kemst að þeirri niðurstöðu, að lögin hafi verið ranglega framkvæmd á síðasta ári

Hv. frsm., þm. Vestm., var að tala um það eins og stundum áður, að við, sem berjumst á móti því, að rýmkun verði gerð, vildum helzt hlynna að útlendingum, sem taka 9/10 alls kola, sem veiddur er hér við land. Ég mótmæli ekki, að aflaskýrslurnar kunni að vera nærri sanni. En það er ekki sérstaklega vegna kolans sjálfs, sem ég berst á móti rýmkun dragnótaveiðanna, því í mínu kjördæmi stunda menn ekki skarkolaveiðar, eins og kunnugt er. Ég legg aðaláherzluna á friðun vegna þess, að ég veit, að þessar kolaveiðar gera stórskaða öðrum fiskiveiðum. Og þó við með friðuninni ölum upp eitthvað af kola handa útlendingum, þá sé ég ekkert athugavert við það. Hitt væri miklu athugaverðara, ef við leyfðum Dönum og Færeyingum að stórspilla fiskiveiðum uppi í landsteinum, til þess eins að spilla kolaveiði Englendinga utan landhelgi.

Ég ætla ekki að orðlengja meira, en vona, að hv. þm. sjái það vænlegast að fella þetta frv. þegar, svo að ekki þurfi að þræta um það á þessu þingi.