14.03.1933
Neðri deild: 24. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í C-deild Alþingistíðinda. (2998)

28. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég skal bara út af því, sem hv. frsm. sagði, að með þessu væri ekki gengið á sjálfsákvörðunarrétt héraðanna, henda á sem dæmi, að samkv. þessu frv. er tekinn einn og hálfur mán. af þeim tíma, sem héruðin hafa nú ráð yfir að ákveða, hvort dragnætur skuli notaðar eða ekki. Þegar í þessu atriði er gengið mjög hastarlega á ákvörðunarrétt héraðanna. Og þegar dragnótaveiðar eru opnaðar einmitt frá miðjum júlí til ágústloka, þá er það beinlínis til þess að kalla á Dani og Færeyinga inn í ísl. landhelgi, sem nú hafa sama rétt til fiskveiða hér við land og landsmenn sjálfir. Það hljóta allir að sjá, að hér er um fullkomna réttarskerðingu að ræða, og hana hættulega. Vitanlega er líka meiningin með þessu - það sýnir framkvæmd l. í sumar sem leið - að hefja upp með þessu allan sjálfsákvörðunarrétt, sem um er að ræða í þessu efni.

Hv. frsm. sagði, að þetta kæmi útlendingum að góðu; þeir veiddu 9/10 af kolanum, sem veiddur er í nánd við Ísland. Hvers vegna? Vitanlega af því, að Íslendingar, sem stunda veiðar utan landhelgi, álíta arðvænlegra að stunda þorskveiðar en kolaveiðar. Þess vegna leggja þeir ekki líkt kapp á kolaveiðar og t. d. Englendingar.

Ennfremur vil ég út af skrafi hv. þm. um það, að við viljum friða kolann fyrir útlendingum, benda honum á það, sem er fullkomin staðreynd í þessu máli. Við það að vera að rótast með dragnótum inni á flóum og fjörðum, þar sem þorskur, ýsa og annar nytjafiskur hefst við á grunnmiðunum, þá er fiskurinn fældur og hrakinn út fyrir landhelgina. Og hvert? Beint í kjaftinn á útlendu veiðiskipunum, sem eru utan við landhelgilínuna. Þetta er kannske alvarlegri hlutur en menn gera sér grein fyrir hér á hv. Alþingi. En ég hefi viljað gera mitt til, að öll alvöruhlið þessa máls yrði uppmáluð fyrir fulltrúum þjóðarinnar áður en þeir rétta upp hendurnar til úrslita um það, hvort eigi að leiða þennan ófögnuð inn í þjóðfélagið eða ekki.