20.03.1933
Neðri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (3002)

28. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Björn Kristjánsson:

Ég skal lofa því að þreyta d. ekki með langri ræðu. Ég sé ekki, að það hafi nokkra þýðingu að endurtaka þau rök, sem fram hafa verið borin bæði með og móti. Málið er orðið þrautrætt bæði á þessu og öðrum þingum. En ég stóð einungis upp til þess að endurtaka þá fyrirspurn mína til hæstv. dómsmrh., sem ég gerði bæði við 1. og 2. umr. málsins, hvort hin alfriðuðu svæði, sem voru áður en bráðabirgðal. gengu í gildi, haldi áfram að vera alfriðuð, þótt þetta frv. verði samþ., eða hvort friðunin sé þá þar með upphafin. Ég þykist ekki í neinum vafa um, að þessi friðun hljóti að halda áfram, því að ég sé ekki, að ákvæði bráðabirgðal. geti afturkallað friðunina, þar sem hún var komin á áður en 1. voru gefin út. En ég vil, að það komi fram í umr., hvaða skilning hæstv. stj. hefir á þessu. Ég sé, að hæstv. dómsmrh. er ekki viðstaddur og því ekki að vænta, að hann gefi neitt svar við þessu, og verð ég þá að líta svo á, að það sé viðurkenning á því, að minn skilningur sé réttur.